Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Tunglið skreppur löturhægt saman

14.05.2019 - 02:07
Mynd með færslu
 Mynd: Freyr Arnarson - RÚV
Tunglið okkar minnkar smám saman, og veldur því að þar krumpast yfirborðið og skelfur. Þetta kemur fram í rannsókn bandarísku geimvísindastofnunarinnar NASA.

Eftir ítarlega greiningu á yfir 12 þúsund myndum af tunglinu  kom í ljós að dalurinn Mare Frigoris, nærri norðurpól tunglsins, hefur verið að brotna og breytast. Ólíkt jörðinni eru engin flekaskil á tunglinu. Hreyfingar á jarðskorpu tunglsins verða vegna mjög hægs varmataps frá upphafi daga þess. Þetta veldur því að yfirborð tunglsins krumpast, ekki ósvipað því þegar vínber verður að rúsínu eins og AFP fréttastofan kemst að orði. En vegna þess að yfirborð tunglsins er stökkt brotnar það upp þegar það minnkar. Samkvæmt mælingum NASA hefur ummál þess minnkað um 50 metra yfir nokkur hundruð milljóna ára tímabil.

Mælingar á skjálftavirkni tunglsins hófust með Apollo leiðöngrum Bandaríkjanna á sjöunda og áttunda áratug síðustu aldar. Þar kom í ljós að flestir skjálftarnir áttu upptök sín djúpt undir yfirborðinu en örfáir á yfirborðinu. Nicholas Schmerr, aðstoðarprófessor í jarðfræði við Maryland háskóla, segir mjög líklegt að sömu misgengi séu virk í dag. Schmerr, sem er einn höfunda rannsóknarinnar sem birt er í vísindaritinu Nature Geoscience, segir sjaldan hægt að fylgjast með jarðskorpuhreyfingum annars staðar en á jörðinni. Þetta sé því spennandi tækifæri fyrir jarðvísindamenn.

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV