Túlkar verk Virginiu Woolf með tónlist

Mynd: wikimedia commons / wikimedia commons

Túlkar verk Virginiu Woolf með tónlist

23.07.2017 - 09:40

Höfundar

Hver er hræddur við Virginiu Woolf? Það er í það minnsta er enginn beygur í þýsk-breska tónskáldinu Max Richter sem fenginn var til þess að semja tónlist fyrir dansverk sem túlkar þrjár skáldsögur Virginiu Woolf, The Waves, Orlando og Mrs Dalloway. Dansinn er eftir Wayne McGregor og ber verkið nafnið Woolf Works. Það var frumsýnt í Konunglegu óperunni í London árið 2015 en tónlist Richters er nú komin út á plötu.

Áhrif Virginiu Woolf teygjast víða

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem áhrif bresku skáldkonunnar Virginiu Woolf teygja sig út fyrir heim bókmenntanna, allt frá því að hún fór að skrifa snemma á síðustu öld. Woolf hefur vissulega orðið mikill innblástur fyrir heilu kynslóðirnar af rithöfundum og suma með afar beinum hætti. Til dæmis Michael Cunningham og skáldsögu hans, The Hours, sem segir áhrifum bókarinnar Mrs Dalloway á þrjár ólíkar konur á ólíkum tímum. Bókin fékk Pulitzer verðlaunin árið 1998 og kvikmynduð fjórum árum síðar.

Kvikmyndaaðlögun The Hours með Nicole Kidman í aðalhlutverki var tilnefnd til fjölda óskarsverðlauna árið 2003.

Margar fleiri skáldsögur hafa verið skrifaðar í tengslum við Woolf, heilu listasýningarnar hafa verið settar upp um hana og leikritið Hver er hræddur við Virginiu Woolf? eftir Edward Albee var frumsýnt árið 1962. Ýmsir tónlistamenn hafa einnig orðið fyrir áhrifum, s.s. Jimmy Smith, Modest Mouse og Morrissey og nú síðast Max Richter.

Hinar vanræktu hugsanir

Tónlist Max Richters sýnir og sannar það sem hann hefur sjálfur rætt töluvert í tengslum við eigin list á síðustu árum. Hann heillast af því að segja sögur. Hann segir að skynjun sé afar rík í frásögn Woolf; hljóð, áferð, litir, taktur skiptir miklu máli og ber tónlistin þess merki.

Tónlist Richter hefst á túlkun fjórðu skáldsögu Woolf, Mrs Dalloway, sem kom út árið 1925. Tónlistin fæst við að túlka nýstárlega sýn Woolf á „áferð hins hversdagslega“, það sem einkennir hana að miklu leyti sem rithöfund. Hún tók eftir litlu hlutunum sem aðrir líta framhjá dags daglega; himinninn, börn að leik eða jafnvel lítið fiðrilidi sem flögrar utan í rúðu. Svo vitnað sé í einn eftirlætis höfund Woolf, Ralph Waldo Emerson: „Í verkum snilldarhöfunda endurupplifum við okkar eigin vanræktu hugsanir.”

Woolf var umhugað um þessa vanræktu hluti sem aðrir höfundar töldu ekki viðeigandi í bókmenntum eða ekki skipta máli. Í verkum sínum reyndi hún eftir bestu getu að nota tungumálið þannig að við gætum betur skilið okkur sjálf án þess að hlaupa yfir gallana, sálrænu hugðarefnin eða líkamlegu hvatirnar.

Karlar sem konur og konur sem karlar

Annar hlutinn í tónlist Max Richters er byggður á bókinni Orlando frá 1928 og jafnframt einu persónulegasta verki Woolf. Sagan segir frá aðalsmanni og skáldi á 16. öld sem fæðist karl en smám saman breytist hann í konu. Bókin hefur verið mikið lesin og túlkuð út frá kynja- og hinseginfræðum enda geymir hún hugmyndir um kynverund okkar, sem Woolf segir ekki vera stöðugt fyrirbæri eða ákvarðað af örlögunum.

Woolf var afar meðvituð um þá staðreynd að karlar og konur skiptust í afmörkuð kynjahlutverk en taldi að til þess að þroskast sem persónuleikar ættum við að leitast við að beygja af í þessum hlutverkum kynjanna og sækja í hluti sem má út hugmyndir um alvöru karlmenn eða alvöru konur.

Þriðji og síðasti hluti tónverks Richters byggir síðan á bókinni The Waves eða Öldurnar sem kom út árið 1931. Það er eflaust tilraunakenndasta verk Woolf, leikur á mörkum prósa og ljóðlistar og samanstendur af 6 mismunandi röddum sem segja frá. Þá margröddun notar Richter tónlist sinni og vísar einnig til titils bókarinnar því síðasti hlutinn samanstendur af tónum sem ganga upp og niður og mynda á endanum stóran og lagskiptan öldugang.

Umhugað um stóru smáatriðin

Virginia Woolf er án efa einn besti höfundur enskrar tungu og eru fáir jafn næmir á að lýsa gangi hugans án klunnalegrar hlutlægni eða sálfræði. Þeir höfundar sem komu á undan Woolf höfðu einbeitt sér að ytra borðinu, borgarmyndinni, hjónabandinu, erfðamálum og skattamálu. Woolf vildi aftur á móti fanga aðra og nýja frásögn sem skoðaði það sem leyndist fyrir innan, hin stóru smáatriði.

Hún hvetur okkur til þess að slökkva stundum á eða í það minnsta draga örlítið fyrir ytra umhverfið og skoða heiminn með hennar augum. Það sem gefur okkur færi á að sjá það sem við förum venjulega á mis við og gætum þannig lært að meta hlutina, allt frá okkar flóknu og fljótandi kynvitund yfir í höfuðverk og litla fiðrildið á rúðunni.