Tugur þolenda krefst bóta

15.03.2013 - 12:11
Mynd með færslu
 Mynd:
Um tíu manns hafa lagt fram kröfur á hendur kaþólsku kirkjunni á Íslandi vegna kynferðisbrota og annars ofbeldis sem þeir telja að starfsmenn kirkjunnar hafi beitt þá. Frestur til að lýsa kröfum rennur út í dag.

Í skýrslu rannsóknarnefndar kaþólsku kirkjunnar sem kynnt var í byrjun nóvember í fyrra kom fram að átta manns telja kennara og skólastjóra Landakotsskóla hafa beitt sig kynferðislegu ofbeldi á tímabilinu 1954 til 1990. Þá sögðust 27 af þeim 30 sem rannsóknarnefndin ræddi við hafa orðið fyrir eða orðið vitni að andlegu ofbeldi. Í langflestum tilfella voru skólastjórinn, séra Georg og Margrét Muller, kennari við skólann, sökuð um að vera völd að ofbeldinu.

Yfirmenn kaþólsku kirkjunnar hafa ekki viljað ræða niðurstöður skýrslunnar við fjölmiðla. Þeir skipuðu þess í stað fagráð og buðu þeim sem töldu sig hafa verið beitta ofbeldi að leggja fram kröfu eða kvörtun. Frestur til að skila slíku inn rennur út í dag.

Yfirstjórn kirkjunnar tekur endanlega afstöðu

Eiríkur Elís Þorláksson hæstaréttarlögmaður er formaður fagráðsins. Hann segir í samtali við fréttastofu að um tugur manna hafi sent ráðinu erindi. Fólkið geri ýmist kröfu um ákveðnar bætur, leggi það í hendur kirkjunnar að bjóða sér bætur eða fari fram á afsökunarbeiðni frá kaþólsku kirkjunni.
Eiríkur segir að fagráð fari yfir þessar kröfur á næstunni og sendi álit til yfirstjórnar kirkjunnar á Íslandi. Það sé síðan hennar að taka endanlega afstöðu til krafnanna.