Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Tugum flóttamanna bjargað á Miðjarðarhafi

09.07.2019 - 06:16
epa07696994 A handout photo made available by German civil sea rescue organisation sea-eye shows the Alan Kurdi vessel, at an undisclosed location, 29 June 2019.  EPA-EFE/FABIAN HEINZ / SEA-EYE HANDOUT  HANDOUT EDITORIAL USE ONLY/NO SALES
 Mynd: EPA-EFE - SEA-EYE
Þýska björgunarskipið Alan Kurdi kom 44 flóttamönnum til bjargar við strönd Líbíu. Að sögn skipverja strandaði bátur flóttamannanna. Deutsche Welle hefur eftir þýsku hjálparsamtökunum Sea-Eye, sem gera út björgunarskipið, að maltneski herinn hafi mætt björgunarskipinu, tekið við flóttamönnunum og flutt þá í land.

Maltnesk yfirvöld hafa enn ekki staðfest þær fregnir. Þau tóku hins vegar á móti 65 flóttamönnum á sunnudag, sem áhöfn Alan Kurdi bjargaði einnig úr Miðjarðarhafi. Ítalir höfðu áður neitað að taka við flóttamönnunum.

Nafn þýska björgunarbátsins er dregið af nafni ungs drengs sem lést á flótta með foreldrum sínum. Líki hans skolaði á land á tyrkneskri strönd haustið 2015. Mynd af honum birtist í fjölmiðlum um allan heim og varpaði ljósi á þá hrikalegu hættu sem fólk leggur sig í til að flýja átök og aðrar hörmungar heima fyrir.

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV