Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Tugþúsundir kvenna mótmæltu stefnu forsetans

15.08.2019 - 04:20
epa07773349 Thousands of women participate in an anti-Government protest in Brasilia, Brazil, 14 August 2019. Around twenty thousand women, most of them farmers and indigenous, paralyzed downtown Brasilia in the first big protest against far-right President Jair Bolsonaro and his Government.  EPA-EFE/JOEDSON ALVES
 Mynd: EPA-EFE - EFE
Tugþúsundir flykktust á götur Brasilíuborgar í gær til þess að mótmæla stefnu forsetans Jair Bolsonaro. Skipuleggjendur mótmælanna segja um 100 þúsund manns hafa tekið þátt í mótmælunum, en að sögn lögreglu voru mótmælendurnir um 20 þúsund. Hvor sem fjöldinn var eru þetta fjölmennustu mótmæli sem stofnað hefur verið til í höfuðborginni síðan Bolsonaro var kjörinn forseti í janúar. 

Langflestir mótmælendanna í gær voru konur. Þetta voru þriðju mótmælin á aðeins tveimur dögum í borginni. Í fyrradag kom fjöldi frumbyggjakvenna saman í borginni og lýstu reiði sinni vegna þess sem þær kölluðu þjóðarmorðsstefnu Bolsonaro í garð frumbyggja Brasilíu. Eins mæltu þær gegn óskum stjórnvalda um að nýta lönd frumbyggja undir námugröft.

Frumbyggjakonurnar komu aftur saman í borginni í gær. Þar tóku þær þátt í ársfjórðungslegum fjöldafundi sem nefndur hefur verið Margarídurnar marséra. Þær kalla sig Margarídur eftir fyrrum verkalýðsforingjanum Margarida Maria Alves, sem var myrt árið 1983, þegar herforingjastjórn réði Brasilíu. Þar var stefnu stjórnar Bolsonaros einnig mótmælt, meðal annars skógarhöggi í Amazon, niðurskurði í menntakerfi og eins var viðvarandi karlrembu og fordómum sem gegnsýra Brasilíu fundið allt til foráttu. Mótmælendur sögðu forsetann fordómafullan, rasískan og hommafælinn. Auk þess var krafist lausnar Lula da Silva, fyrrverandi forseta Brasilíu, úr fangelsi. Þar situr hann inni vegna spillingarmála. 

Vinsældir Bolsonaro hafa dvínað hratt í heimalandinu. Hann státaði sig af ánægju ríflega helmings Brasilíumanna þegar hann tók við embætti. Að sögn Deutsche Welle sýna nýlegar kannanir að innan við þriðjungur landsmanna er ánægður með störf hans. Hann er heldur ekki sérlega vinsæll utan landsteinanna. Stjórnvöld víða um heim hafa gagnrýnt hann fyrir aukið skógarhögg í Amazon síðan hann tók við embætti.

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV