Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Tugþúsundir fastar á leigumarkaði

30.10.2018 - 18:24
Mynd: Miguel Saavedra / RGBStock
Við höfum heyrt um dönsku leiðina og svissnesku leiðina í húsnæðismálum en nú hyggst húsnæðismálaráðherra fara þá finnsku. Hann vill að ríkið og sveitarfélög á stórhöfuðborgarsvæðinu vinni saman að því að taka á framboðsskorti og með stórhöfuðborgarsvæðinu á hann ekki bara við þau sveitarfélög sem almennt eru talin til höfuðborgarsvæðisins. Formaður félags leigjenda vill leiguþak og hugarfarsbreytingu.

Leigjendur hafa það að jafnaði verra en þeir sem eiga húsnæði. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu Íbúðalánasjóðs og velferðarráðuneytisins um stöðu og þróun húsnæðismála. Skýrslan kom út í tengslum við húsnæðisþing stjórnvalda sem fram fór á Hilton Hótel Nordica í dag.

Þeir tekjulægstu flytja oftast

Á Íslandi eru um 30 þúsund heimili á leigumarkaði, það jafngildir, að sögn fulltrúa Íbúðalánasjóðs, öllum heimilum í Hafnarfirði, Garðabæ og Kópavogi til samans. Bilið milli þeirra sem eiga og þeirra sem leigja hefur breikkað verulega frá hruni, leigjendur búa mun frekar við íþyngjandi húsnæðiskostnað. Af þeim sem eiga húsnæði telja 94% sig búa við húsnæðisöryggi en aðeins 57% leigjenda telja svo vera. Raunar óttast fimmtungur leigjenda að hann kunni að missa húsnæði sitt á næstunni og fólk sem ala þarf önn fyrir börnum uppilfir meira óöryggi en barnlaust fólk. Þá er það svo að þeir tekjulægstu á leigumarkaði flytja oftast með tilheyrandi kostnaði og óþægindum. 

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Heimili.

Mikill skortur á félagslegum íbúðum

Leigjendur eiga erfiðara með að leggja fyrir en þeir sem eiga húsnæði og eru flestir á leigumarkaði því þeir neyðast til þess, eru fastir þar. Þannig er hlutfall þeirra sem leigja af því þeir vilja leigja einungis 8% og hefur aldrei mælst lægra. 

Bakland skiptir öllu

Lítil uppbygging eftir hrun, vöxtur í ferðaþjónustu, Airbnb og erlent verkafólk. Þetta og fleira til hefur getið af sér djúpstæðan húsnæðisskort. Hann hefur áhrif á leigumarkaðinn þar sem eftirspurnin er gríðarleg og verð eftir því - og á fasteignamarkaðinn í heild. Ungt fólk á erfitt með að kaupa, þrátt fyrir aðgerðir stjórnvalda - frá 2010 hafa um 60% fyrstukaupenda fengið stuðning fá ættingjum - bakland skiptir miklu. Áður var hlutfallið nær 40%. 

 Í skýrslunni segir að uppbygging félagslegs húsnæðis hafi ekki haldist í hendur við stóraukna þörf - það þurfi 5000 til 7000 íbúðir til viðbótar við þær  íbúðir sem nú stendur til að byggja með stofnframlögum frá stjórnvöldum - úthlutað hefur verið framlögum fyrir 1425 slíkum íbúðum, þar af hátt í 300 félagslegum íbúðum. Hvað varðar félagslegar íbúðir má minna á tíðindi gærdagsins. Brynja, hússjóður Öryrkjabandalagsins er hætt að taka við nýjum umsóknum. Nú eru 600 á biðlista og stjórn sjóðsins telur útilokað að nýjar umsóknir verði afgreiddar á næstu árum. Loks hefur hópur heimilislausra í Reykjavík tvöfaldast á síðastliðnum fimm árum. 

Mynd með færslu
 Mynd: Silfrið - RÚV
Margrét Kristín Blöndal, formaður nýs félags leigjenda.

 

Í spilaranum hér fyrir ofan má hlýða á viðtöl Spegilsins við Ásmund Einar Daðason, húsnæðismálaráðherra og Margréti Kristínu Blöndal, formann nýs félags leigjenda. 

 

arnhildurh's picture
Arnhildur Hálfdánardóttir
Fréttastofa RÚV