Tugir létust í sprengjuárásum í Bagdad

30.05.2017 - 12:27
Mynd úr safni - Mynd: AP / AP
Að minnsta kosti 27 létu lífið og 100 særðust í tveimur sprengjuárásum í Bagdad, höfuðborg Íraks, í gærkvöld. Önnur var sjálfmorðssprengjuárás sem gerð var við vinsæla ísbúð í höfuðborginni.

Í yfirlýsingu frá hryðjuverkasamtökunum sem kenna sig við íslamskt ríki segir að liðsmaður samtakanna hafi sprengt bíl hlaðinn sprengiefni við ísbúðina og að árásin hafi beinst að síta-múslimum. Árásirnar voru gerðar nokkrum dögum eftir að Ramadan, föstumánuður múslima hófst. Þá flykkjast fjölskyldur út á kvöldin í verslanir og á veitingastaði.

Talsmaður alþjóðlegs liðs sem berst gegn vígamönnum Íslamska ríkisins segir að hryðjuverkasamtökin hafi sýnt sitt illa innræti með þessari árás á börn sem voru með foreldrum sínum að kaupa ís.

 

Þorvaldur Friðriksson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi