Tugir látnir í ferjuslysi í Austur-Kongó

27.05.2019 - 04:34
Mynd með færslu
 Mynd: Google
Minnst 30 eru látnir og tuga er enn saknað eftir að farþegaferja sökk á Mai-Ndombe fljóti í Austur-Kongó á laugardagskvöld. AFP fréttastofan hefur eftir Simon Mbo Wemba, bæjarstjóra Inongo, nærri vatninu, að yfir 350 hafi verið um borð þegar ferjan sökk, og 183 hafi verið komið til bjargar.

Wemba segir erfitt að segja til um nákvæman fjölda farþega, þar sem margir þeirra gætu hafa verið óskráðir innflytjendur. 30 lík hafa verið dregin upp úr vatninu, þar af eru 12 konur, 11 börn og sjö karlmenn.

Ferjusiglingar eru ein algengasta samgönguleiðin í Austur-Kongó, þar sem nóg er af fljótum og vötnum. Slys eru algeng, sérstaklega vegna ofhleðslu farþega eða varnings. Slysin kosta oft fjölda mannslífa þar sem yfirleitt eru engin björgunarvesti um borð.
 

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi