Tugir látið lífið í óveðri í Afríku

17.03.2019 - 04:27
Erlent · Hamfarir · Afríka · Malaví · Mósambík · Simbabve
Mynd með færslu
Fellibylurinn Idai kom í dag að ströndum Mósambíkur. Mynd:
Að minnsta kosti 31 eru látnir og tuga er saknað eftir að fellibylurinn Idai reið yfir austurhluta Simbabve í gær. Idai hefur þegar valdið usla í Malaví og Mósambík, en alls hafa yfir ein og hálf milljón manna í löndunum þremur fundið fyrir áhrifum fellibylsins að sögn Sameinuðu þjóðanna og stjórnvalda.

Al Jazeera fréttastofan segir heimili, skóla, fyrirtæki, sjúkrahús og lögreglustöðvar hafa eyðilagst í óveðrinu og þúsundir eru innlyksa vegna mikilla flóða. haft er eftir upplýsingaráðuneyti Simbabve að herinn leiði björgunaraðgerðir, þar sem meðal annars þarf að hífa nemendur úr ónýtum skóla upp í þyrlu, og fleiri sem eru strandaglópar af völdum stormsins.
Joshua Sacco, sem er í héraðsstjórn í Chimanimani, segir að aurskriða hafi hrifsað með sér 25 hús hið minnsta. Fólk var inni í þeim flestum að hans sögn, og samkvæmt hans upplýsingum er yfir 100 saknað.

Idai fór yfir Mósambík á fimmtudag þar sem 19 létu lífið og 70 slösuðust talsvert. Samkvæmt yfirvöldum í landinu hafði hellidemba sem reið yfir landið áður en fellibylurinn kom þegar tekið 66 mannslíf, slasað fjölda og gert 17 þúsund manns heimilislaus. Þá létu 56 lífið í Malaví samkvæmt stjórnvöldum þar. Suður-afríski herinn hefur sent flugvél og tíu heilbrigðisstarfsmenn til aðstoðar í Mósabík og Malaví.

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi