Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Tugir í fjöldahjálparstöð í Vík - vegurinn lokaður

10.03.2020 - 00:34
Mynd með færslu
 Mynd: Halla Ólafsdóttir - RÚV
Tugir manna dvelja í fjöldahjálparmiðstöð í íþróttahúsinu í Víki í Mýrdal þar sem búið er að loka Suðurlandsvegi milli Víkur og Hvolsvallar vegna óveðurs. Vísir.is greinir frá. Þar segir að Björgunarsveitin Víkverji í Vík hafi haft í miklu að snúast og haft eftir Orra Örvarssyni, formanni Víkverja, að frekar blint sé á þessum slóðum og mikil lausamjöll. Veginum var lokað í kvöld en Orri segir það hafa verið gert allt of seint, enda „búið að vera vesen í allan dag."

Í frétt Vísis segir að um 90 manns dvelji nú í fjöldahjálparstöðinni í góðu yfirlæti og að björgunarsveitin hafi þurft að sinna tugum útkalla frá hádegi vegna ökutækja sem ýmist komust ekki lengra eftir veginum eða lentu utan hans. Búið sé að draga olíubíla, rútur og flutningabíla úr ógöngum, auk fólksbíla.

Auk Víkverja tóku félagar úr björgunarsveitinni Dagrenningu þátt í aðgerðum eystra í dag. Haft er eftir Orra að þær hafi gengið vel og engin slys orðið fólki. Þá telur hann að auðvelt verði að opna þjóðveginn á ný um leið og vind tekur að lægja, þótt enn séu nokkrir bílar fastir á eða við veginn. 
 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV