Tugir drepnir í mótmælum á Gaza

A boy waves a Palestinian flag while walking through black smoke from burning tires during a protest on the Gaza Strip's border with Israel, Monday, May 14, 2018. Thousands of Palestinians are protesting near Gaza's border with Israel, as Israel
Frá mótmælum á Gaza á morgun. Mynd: ASSOCIATED PRESS - AP
Ísraelskir hermenn hafa skotið til bana 41 Palestínumenn í mótmælum á Gaza-ströndinni við mörk Ísrael í morgun. Meira en fimm hundruð eru sárir. Hátt í hundrað Palestínumenn hafa verið drepnir í mótmælum undanfarnar vikur.

Mótmæli Palestínumanna hófust 30. mars og hafa beinst gegn því að 70 ár eru frá stofnun Ísraelsríkis og hundruð þúsunda Palestínumanna voru hraktir í útlegð. 

Ennfremur mótmæla þeir flutningi sendiráðs Bandaríkjamanna frá Tel Aviv til Jerúsalem, en hið nýja sendiráð verður opnað klukkan eitt eftir hádegi í dag að íslenskum tíma.

Flutningur sendiráðsins hefur víða vakið hörð viðbrögð og hefur Arababandalagið, sem segir þann gjörning ólöglegan, verið boðað saman til aukafundar vegna málsins á miðvikudag. 

Recep Tayyip Erdogan, forseti Tyrklands, sagði í morgun að Bandaríkjamenn hefðu með þessum gjörningi glatað hlutverki sínu sem sáttasemjari í deilum Ísraelsmanna og Palestínumanna. Þeir hefðu kosið að verða partur af vandamálinu, en ekki lausninni.

Um 800 gestir verða við opnun sendiráðsins í Jerúsalem í dag. John Sullivan, varautanríkisráðherra, verður þar í forsvari fyrir hönd Bandaríkjastjórnar.

Hann sagði opnunina bera upp á stofndag Ísraelsríkis, sem Bandaríkjamenn hefðu verið fyrstir til að viðurkenna. Bandaríkjastjórn telji mikilvægt að hafa frumkvæði að því að viðurkenna Jerúsalem sem höfuðborg Ísraels eins og Donald Trump Bandaríkjaforseti hefði ákveðið í desember. 

Trump sendi þau skilaboð í morgun að þetta væri frábær dagur fyrir Ísrael vegna flutnings sendiráðsins.

Palestínskir ráðamenn hafa fordæmt ákvörðun Bandaríkjaforseta. Nabil Shaath, einn helsti ráðgjafi Mahmouds Abbas, forseta Palestínumanna, segir málið ekki í raun snúast um flutning sendiráðsins, heldur um framtíðarhlutverk Jerúsalemborgar.

Uppfært kl. 13.42 með nýjustu tölum um mannfall, fengnum frá BBC.

Kristján Róbert Kristjánsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi