Tugir ætla að sniðganga embættistöku Trumps

Mynd með færslu
Frá æfingu fyrir embættistöku Trumps um síðustu helgi. Mynd: EPA
Meira en 50 þingmenn Demókrataflokksins ætla ekki að vera viðstaddir þegar Donald Trump tekur við embætti forseta á föstudag, vegna ummæla hans um fulltrúadeildarþingmanninn John Lewis. 

Lewis lýsti því yfir í síðustu viku að hann teldi Trump ekki lögmætan forseta í ljósi fullyrðinga um afskipti Rússa af forsetakosningunum vestanhafs. 

Trump brást hart við og sagði á samskiptamiðlinum Twitter að Lewis gerði lítið annað en að vera með yfirlýsingar sem skiluðu engu.

Þótti mörgum hart vegið að Lewis, sem var einn forystumanna í réttindabaráttu blökkumanna á sjöunda áratug síðustu aldar og þjóðhetja í augum margra Bandaríkjamanna.

Að sögn breska útvarpsins BBC er þetta ekki í fyrsta skipti sem þingmenn sniðganga embættistöku forseta. Áttatíu þingmenn hafi verið fjarverandi þegar Richard Nixon tók við embætti 1973. Þá hafi Lewis og nokkrir aðrir ekki verið við embættistöku George W. Bush árið 2001.

Kristján Róbert Kristjánsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi