Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Tuga saknað eftir olíuslys í Nígeríu

03.03.2019 - 04:33
Mynd með færslu
 Mynd:
Yfir fimmtíu er saknað eftir að leki í olíuleiðslu leiddi til sprengingar í suðurhluta Nígeríu á föstudag. Guardian greinir frá þessu. Mikil þvaga myndaðist eftir sprenginguna þegar fólk reyndi að flýja svæðið. 

Lekinn varð í Bayelsa-fylki Nígeríu, á landsvæði Nembe þjóðflokksins. Olía lak yfir stórt svæði í héraði þeirra. Hundruð manna hafa látið lífið við svipaðar kringumstæður á olíusvæðum í Afríku, þar sem fólk hættir lífi sínu við að safna saman olíu sem lekur úr leiðslum eða flutningabílum. Í janúar lét fjöldi fólks lífið þegar tugir söfnuðust saman við olíuflutningabíl sem valt í Cross River-fylki. Flutningabíllinn sprakk, og segir lögregla að minnst 12 hafi látið lífið, en vitni segja allt að 60 hafa farist.
 

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV