Athugið þessi frétt er meira en 9 ára gömul.

Tryggvi Þór hyggst nýta úrræðin sjálfur

27.03.2014 - 08:15
Mynd með færslu
 Mynd:
Mynd:  / 
Tryggvi Þór Herbertsson, verkefnisstjóri um framkvæmd höfuðstólslækkunar íbúðalána, segir ekki ljóst hversu margir muni nýta sér þau úrræði sem ríkisstjórnin kynnti í gær vegna skuldaleiðréttinga á verðtryggðum húsnæðislánum.

Í kringum 75.000 heimili eru með verðtryggð húsnæðislán í dag. Talið er að um fimm þúsund þeirra séu nú þegar búin að fá svo miklar niðurfellingar að þau séu ekki gjaldgeng í þeim úrræðum sem nú hafa verið kynnt.

Tryggvi Þór, sem var gestur Morgunútvarpsins á Rás 2 í morgun, sagði þar að þau tæplega 70.000 sem væru gætu vænst þess að fá niðurfellingar, allt frá litlum upphæðum upp í tilgreinda hámarksfjárhæð.

Hvað varðar þá sem geta notað séreignasparnað til að greiða niður lán sagði Tryggvi að þar væri meira rennt blint í sjóinn en talið væri að um 30.000 heimili sem gætu nýtt sér það úrræði. Hann sagði ekki útilokað að svo gæti farið að aðeins fimmtíu þúsund sæktu um niðurfellingar.

Tryggvi segir afar mikilvægt að verðbólga verði innan marka á næstu árum svo aðgerðirnar skili tilætluðum árangri. „Það verður vandasamt næstu árin að hafa ríkisfjármálin, launahækkanir og aðra þætti sem hafa áhrif á verðlag þannig að sá ábati sem næst með þessari aðgerð festist í sessi.“

Aðspurður um hvort hann sem hagfræðingur myndi ráðleggja fólki að taka hluta af framtíðarsparnaði sínum og nota í staðinn til að greiða niður höfuðstól af verðtryggðu láni svaraði Tryggvi: „Já, ég myndi gera það. Og ég ætla að gera það sjálfur. Vegna þess að það sem gerist er að þú ert að fá út peninga í þetta og þú færð ekki betri ávöxtun. Þetta er yfir fjörutíu prósent ávöxtun.