Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Tryggingastofnun biður Jóhönnu afsökunar

13.02.2019 - 17:00
Mynd:  / 
Tryggingastofnun hefur beðist velvirðingar á því að hafa í tölvupósti krafið Jóhönnu Þorsteinsdóttur um endurgreiðslu vegna þess að hún hafi fengið ofgreitt frá stofnunni. Það var vegna máls hennar, en nú stendur til að endurgreiða öryrkjum rúmlega tvo milljarða króna fjögur ár aftur í tímann. Allt bendir til þess að Jóhanna eigi inni hjá stofnuninni en sé alls ekki í skuld við hana.

Fjallað hefur verið um mál Jóhönnu í Speglinum. Saga hennar er í stuttu máli sú að hún flutti til Danmerkur árið 2005 þegar hún var 16 ára en veiktist og varð óvinnufær þegar hún var 18 ára. Henni var synjað um örorkubætur í Danmörku og hún ákvað að flytja til Íslands árið 2010. Hún var hér heima metin með fulla örorku árið 2013. Vegna þess að hún bjó í Danmörku í 5 ár var búsetuhlutfall hennar metið 47%, sem þýddi að hún átti rétt á tæplega helmings bótum. Hún óskaði eftir því að fá bætur tvö ár aftur í tímann, sem varð til þess að greiðsluhlutfallið féll niður í 21%. Þannig eru reglurnar um búsetuhlutfall þeirra sem hafa jafnframt búið í öðru EES-landi. Hún sætti sig illa við þessa niðurstöðu og endaði með að fara með mál sitt til umboðsmanns Alþingis. Hann komst að þeirri niðurstöðu í júní í fyrra að reiknireglur Tryggingastofnunar ættu ekki stoð í lögum eða almannatryggingareglugerð Evrópusambandsins.

Kröfðu Jóhönnu um endurgreiðslu

Félagsmálaráðuneytið hefur komist að þeirri niðurstöðu að endurgreiða eigi öryrkjum með skert búsetuhlutfall vegna búsetu í öðrum EES-löndum. Vegna reglna um fyrningu muni þær ná fjögur ár aftur í tímann og gætu numið rúmum tveimur milljörðum króna. Í tilkynningu frá Tryggingastofnun skömmu eftir áramót sagði að stefnt væri að því að niðurstaða lægi fyrir í lok janúar og að í framhaldinu yrði byrjað að vinna hvert mál fyrir sig. Jóhanna, sem nú er búsett í Danmörku, sendi TR fyrirspurn í síðustu viku og vildi fá að vita hvað málinu liði í ljósi þess að kynna hefði átt niðurstöðu í lok janúar. Hún fékk það svar að verið væri að vinna í málinu. Niðurstaða væri ekki komin því málið væri umfangsmikið. Allir hlutaðeigandi fengju bréf þegar niðurstaðan lægi fyrir. Jóhanna ítrekaði fyrirspurn sína og vildi fá skýringar á töfinni á afgreiðslu málsins. Nú væri liðið rúmt hálft ár frá niðurstöðu umboðsmanns Alþingis. Í svari TR kom fram að enn væri verið að vinna í því hvernig framkvæmdin yrði vegna úrskurðar umboðsmanns Alþingis. Hún yrði látin vita ef þetta ætti við um hana. Klykkt var út með því að kröfur væru á hana frá fyrra ári vegna þess að hún hefði fengið ofgreitt frá Tryggingastofnun og því þyrfti hún að endurgreiða stofnunni.

Gátu afgreitt málið á innan við sólarhring

Jóhanna er ekki sátt við svar Tryggingastofnunar. Hún skuldar vissulega 150 þúsund krónur vegna þess að hún fór yfir tekjumörk sem stofnunin setur.

„Ég skil það vel ef að ég hef haft þannig tekjur sem hafa farið yfir viðmiðun Tryggingarstofnunar um hvað öryrkjar mega þéna, þá geta þeir að sjálfsögðu rukkað mig um það. Mér finnst ósanngjarnt að þeir reyni að rukka mig um það áður en það kominn botn í málið um búsetuhlutfallið. Þennan útreikning gátu þeir afgreitt á innan við sólarhring,“ segir Jóhanna.

Jóhönnu finnst það öfugsnúið að hún sé krafin um endurgreiðslu þegar standi fyrir dyrum að stofnunin endurgreiði henni og að allt bendi til þess að stofnunin skuldi henni þegar málið hefur verið gert upp.

„Álit umboðsmanns er út frá mínu máli þannig að það er búið að gera nokkuð nákvæma greinargerð um hvernig mitt mál ætti að vera leyst. Þess vegna sé ég ekki hvað er svona flókið við þetta mál,“ segir Jóhanna.

Mistök og biðjast velvirðingar

Tryggingastofnun brást strax við þegar þessi tölvusamskipti voru borin undir forstjóra stofnunarinnar. Jóhönnu var sent bréf í morgun þar sem kemur fram að um leið mistök hafi verið að ræða hjá stofnunni og beðist er velvirðingar á þessu. Fram kemur að ekki sé um skuld við stofnunina að ræða. Eftir því sem Spegillinn kemst næst var svarið staðlað svar til þeirra fjölmörgu sem vilja fá að vita um framvindu málsins. Og einnig eftir því sem næst verður komist fari Öryrkjabandalagið með umboð fyrir Jóhönnu í samskiptum við Tryggingastofnun.

Þetta er kannski ekki stórmál en þetta snýst um það hvenær Tryggingastofnun endurgreiðir um 1000 öryrkjum fjögur ár aftur í tímann. Samkvæmt upplýsingum Spegilsins er stofnunin að ljúka við drög að aðgerðaáætlun um endurgreiðslur sem verða fljótlega send til ráðuneytisins.

En það er sótt fast að bæði Tryggingastofnun og félagsmálaráðuneytinu að ljúka málinu sem fyrst. Spegillinn ræddi við Ásmund Einar Daðason félagsmálaráðherra 24. janúar.

„Það þarf að taka handvirkt mál hvers og eins, það þarf að hafa samband við hvern og einn einstakling og fara yfir málin með honum. Síðan þarf að hafa samband við systurstofnanir Tryggingastofnunar í þeim löndum sem viðkomandi hefur búið í og fá upplýsingar um greiðslur sem hafa verið inntar af hendi þar. Það er mjög misjafnt hvað það getur tekið langan tíma. Okkur hefur verið tjáð að það geti tekið allt að átta mánuði hjá tryggingastofnun í okkar nágrannalöndum að svara slíkum fyrirspurnum,“ sagði Ásmundur Einar.

Mynd með færslu
 Mynd:
Ásmundur Einar Daðason.

Engar greiðslur fyrr en fjárheimild liggur fyrir

Það er alls ekki ljóst hvenær þessir 1000 öryrkjar fá endurgreitt því talsverð vinna er fyrir höndum að fara yfir mál hvers og eins. Tryggingastofnun hefur óskað eftir formlegum tilmælum frá ráðuneytinu um hvernig staðið verði að framkvæmd leiðréttingarinnar. Í bréfi sem stofnuninni barst á föstudag kemur fram að áhersla sé lögð á að stofnunin afli allra nauðsynlegra upplýsinga við afgreiðslu hvers og eins máls áður en ákvörðun er tekin um greiðslu. Haga beri framkvæmdinni með hliðsjón af niðurstöðu umboðsmanns Alþingis. Það eigi bæði við um leiðréttingu á greiðslum aftur í tímann og ákvörðun í þeim málum sem bíða afgreiðslu. Jafnframt kemur fram að þau fyrirmæli hafi borist frá fjárlaganefnd Alþingis og fjármálaráðuneytinu að greiðslur komi ekki til framkvæmda fyrr en aflað hafi verið viðeigandi fjárheimilda og fjallað hafi verði um málið í ráðherranefnd um ríkisfjármál og ríkisstjórn.