Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Tryggi sjálfsákvörðunarrétt yfir eigin líkama

25.01.2019 - 11:31
Mynd með færslu
Fríða Rós Valdimarsdóttir er formaður Kvenréttindafélags Íslands. Mynd: RÚV
Kvenréttindafélag Íslands styður nýtt frumvarp til laga um þungunarrof og segir það vera stórt skref í að tryggja kynfrelsi og sjálfsákvörðunarrétt kvenna yfir eigin líkama. Umsögn Kvenréttindafélags Íslands og 728 einstaklinga um frumvarp til laga um þungunarrof var send til nefndasviðs Alþingis í gær.

Konur geta látið binda enda á þungun fram til loka 22. viku samkvæmt frumvarpinu, óháð því hvaða ástæður liggja að baki þeim vilja konunnar. Eftir lok 22. viku þungunar er lagt til að einungis verði heimilt að framkvæma þungunarrof ef lífi þungaðrar konu er stefnt í hættu við áframhaldandi þungun eða ef fóstur telst ekki lífvænlegt til frambúðar. Samkvæmt núgildandi lögum er þungunarrof heimilt til loka sextándu viku og heimild er til þess eftir 16 vikur, „séu miklar líkur á vansköpun, erfðagöllum eða sköddun fósturs" eins og segir í lögunum.

52 umsagnir hafa borist um frumvarpið. Send var út 61 umsagnarbeiðni, þar af voru 37 til lífsskoðunar- og trúfélaga. Umsagnarbeiðnir voru einnig senda til 12 ríkisstofnana, 7 voru sendar til samtaka launafólks og atvinnulífs og fimm til almannaheillasamtaka, þar af ein til samtaka innan kvennahreyfingarinnar, Kvenréttindafélags Íslands.

Kvenréttindafélagið sendi bréf til þeirra félaga sem stóðu á bak við Kvennafrídaginn á síðasta ári og hvatti þau til að senda inn umsögn um frumvarpið. Þá hóf félagið undirskriftasöfnun til að styðja við umsögn Kvenréttindafélagsins og skrifuðu 728 undir eins og áður kom fram.

„Víðtæk samfélagssátt ríkir á Íslandi um nauðsyn þess að tryggja að konur geti rofið þungun að eigin ósk. Þessi löggjöf er heillaspor í átt til kvenfrelsis og jafnréttis kynjanna. Við hvetjum Alþingi að samþykkja þetta frumvarp til laga um þungunarrof,“ segir meðal annars í umsögninni.

ingvarthor's picture
Ingvar Þór Björnsson
Fréttastofa RÚV