Tryggðarpantur Auðar á hvíta tjaldið

Mynd:  / 

Tryggðarpantur Auðar á hvíta tjaldið

18.01.2019 - 11:23

Höfundar

Kvikmyndin Tryggð verður frumsýnd í kvikmyndahúsum um mánaðamótin. Myndin er byggð á skáldsögunni Tryggðarpantur eftir Auði Jónsdóttur frá árinu 2006.

Myndin segir frá Gísellu Dal, sem leigir tveimur erlendum konum herbergi til að drýgja tekjurnar um leið og hún skrifar grein um húsnæðismál útlendinga. En sambúðinni fylgja árekstrar.  

„Fyrir tíu árum las ég bókina og varð alveg heilluð,“ segir Ásthildur Kjartansdóttir, sem bæði skrifar handrit og leikstýrir. 

Mynd með færslu
 Mynd:
Ásthildur Kjartansdóttir leikstjóri.

„Um leið og ég var búin að lesa bókina hringdi ég í Auði og keypti réttinn. Á þessum tíma voru málefni útlendinga rétt svona að koma upp á yfirborðið en það hefur breyst mikið síðan. Myndin er rauninni meira aktúel í dag en þegar Auður skrifaði bókina.“ 

Með hlutverk Gísellu fer Elma Lísa Gunnarsdóttir. „Ég get sagt það að þegar ég las bókina á sínum tíma fór þessi karakter rosalega í taugarnar á mér, sem er svolítið fyndið því nokkrum árum síðar er ég að fara að leika hana í bíómynd. Hún býr ein í risastóru húsi, hún er einmana og svolítið óttaslegin týpa. Hún er ekki með sterka tilfinningagreind, það má segja að hún hafi alist upp við mikið fjárhagslegt öryggi en minna af ástríki og víðsýni.“ 

Mynd með færslu
 Mynd:
Elma Lísa Gunnarsdóttir leikkona.

Ásthildur byrjaði á að hafa samband við stofnanir sem hefðu með erlendar konur að gera, til dæmis Rauða krossinn og samtökin Women.

„Myndin af hag þeirra var miklu skýrari eftir að hafa talað við þær. Fyrst ætlaði ég að hafa reyndar leikkonur en ég hætti við það. Mér fannst miklu trúverðugra og betra að hafa alvöru innflytjendur í þessum hlutverkum. Og þegar ég var búin að ákveða hvaða leikkonur áttu að leika hlutverkin notaði ég þeirra sögur í persónusköpunina í handritinu.“ 

Með hlutverk leigjendanna tveggja fara leikkonurnar Raffaella Brizuela Sigurðardóttir frá Mexíkó og Enid Mbabazi frá Úganda.

„Abeba í kvikmyndinni er kona frá Úganda eins og ég, hún á dóttur eins og ég,“ segir Enid. „Hún er hér án tilskilinna pappíra, vegabréfsáritunar svo hún geti dvalið hér. Hún þarf að vinna tilfallandi störf við hreingerningar á heimilum og atvinnuhúsnæði og reynir sitt besta til að sjá fyrir sér. Og þannig fór ég að, því ég varð að gera allt til að komast hér af og sjá fyrir mér og barninu.“

Mynd með færslu
 Mynd:
Enid Mbabazi leikkona.

Elma Lísa leggur áherslu á að þótt myndin taki á málefni sem hafi verið mikið í umræðunni, stöðu innflytjenda, þá fjalli hún líka um samskipti. 

„Þú kynnist aldrei neinum nema með því að búa með honum og þá koma upp vandamál. Og ég held að það sé svolítil Gísella í okkur öllum.“

Fjallað var um Tryggð í Menningunni. Horfa má á innslagið hér að ofan. 

Tengdar fréttir

Klassísk tónlist

Quake eftir Pál Ragnar Pálsson

Bókmenntir

Sköpunarsaga rithöfundar

Bókmenntir

Rithöfundur sem opnar augu okkar

Bókmenntir

Þetta er allt lygi