Athugið þessi frétt er meira en 8 ára gömul.

Trúnaðarkrafa kom í veg fyrir samráð

Mynd með færslu
 Mynd:
Krafa þýska hafnarfélagsins Bremenport um trúnað kom í veg fyrir að hægt væri að upplýsa landeigendur um áhuga fyrirtækisins á að kanna kosti stórskipahafnar í Finnafirði, segir oddviti Langanesbyggðar, sem segir tímabært að funda með landeigendunum. Einn þeirra líkir áformunum við hryðjuverk.

Finnafjörður liggur við Langanes undir Gunnólfsvíkurfjalli. Sveitarfélögin Langanesbyggð og Vopnafjarðhreppur hefur lengi dreymt um stórskipahöfn í firðinum sem skapa myndi hundruð starfa. Nú vill þýska fyrirtækið Bremenports kosta rannsóknir á hagkvæmni slíkrar hafnar. Það kom landeigengum á óvart og þeir gagnrýna samráðsleysi.

„Þetta þarf auðvitað allt að komast í einhverjum skrefum og það er að ósk Bremenports að þetta hefur verið unniðí trúnaði og nú er komið að vissum áfanga og þá er það næsta skref að ræða við landeigendur hérna og fara yfir málin,“ segir Siggeir Stefánsson, oddviti Langanesbyggðar. Hann bætir við að bæði Langanesbyggð og Bremenports vilji eiga gott samstarf við landeigendur og verði fundað með þeim. Þá verði boðaður íbúafundur til að kynna áformin.

Rannsóknirnar fara mest fram á sjó en einnig þarf að kanna jarðveg og berglög og verður hægt að ljúka því án mikils rasks. Verkefnið tekur þrjú til fimm ár og kostar nokkur hundruð milljónir en verður alfarið greitt af Bremenports enda eiga sveitarfélögin ekki fé í slíkt. Fjörðurinn er aðdjúpur, nóg landrými og hægt að fylgjast með skipaumferð úr ratsjárstöð á Gunnólfsvíkurfjalli. Þegar hefur verið skipulagt athafnasvæði við Gunnólfsvík en styr stendur um nýtt athafnasvæði hinum meginn í firðinum.

Gangi áformin eftir verður svæðið frá Finnafjarðará að Gunnólfsvík grænt svæði milli tveggja athafnasvæða. Innan þess svæðis er bújörðin Fell; eina jörðin sem er í byggð í Finnafirði.

„Þetta er bara nánast hryðjuverk að ætla að fara svona með fallegan fjörð,“ segir Reimar Sigurjónsson, bóndi á Felli í Finnafirði.

Landeigendur telja óheimilt að taka landbúnaðarland úr notkun nema landeigendur sjálfir eigi frumkvæðið. „Við landeigendur erum búnir að kæra aðalskipulagið; á Felli, hluti af Hellulandseigendum og á Syðra Lóni. Við erum búnir að lenda í verulegum lögfræðikostnaði við að verja rétt okkar sem landeigendur.“