Trúnaðarbrestur vegna málsins

25.09.2012 - 18:04
Mynd með færslu
 Mynd:
Björn Valur Gíslason, formaður fjárlaganefndar, segir að trúnaðarbrestur hafi orðið á milli Alþingis og Ríkisendurskoðunar. Sveinn Arason ríkisendurskoðandi neitar að afhenda þingmönnum drög að skýrslu sem unnið hefur verið að í átta ár, sem formaður fjárlaganefndar krefst þess að fá afhent.

Ríkiendurskoðandi var boðaður á fund fjárlaganefndar og stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis í hádeginu í dag vegna skýrslu um kaup og innleiðingu á nýju bókhaldskerfi ríkisins sem embættið hefur unnið að í 8 ár og enn ekki skilað af sér. Í drögum skýrslunnar frá 2009 kemur fram að kerfið hafi kostað fjóra milljarða króna, en heimild á fjárlögum 2001 þegar kerfið var keypt hljóðaði upp á 160 milljónir króna.

Óvenju harðorðir þingmenn

Alþingismenn voru óvenju harðorðir í garð Sveins Arasonar, ríkisendurskoðanda og margir tóku skýrt fram að orðið hefði alvarlegur trúnaðarbrestur á milli Alþingis og Ríkisendurskoðunar í þessu máli. Björn Valur Gíslason, formaður fjárlaganefndar tekur undir það. „Já, það voru nokkrir þingmenn sem lýstu því yfir og ég held við þurfum að þreifa aðeins betur á því. Við þurfum að fá skýrari svör um það hvað þarna hefur verið að gerast. Það hefur vissulega aðeins skarast, ég get ekki neitað því.“

Sveinn Arason viðurkenndi að vinnan við skýrsluna hefði mátt vera snarpari, eins og hann orðaði það. Drög að skýrslunni voru tilbúin í nóvember 2009. Þar kemur fram að kostnaður við upptöku og rekstur kerfisins hafi farið margfalt fram úr áætlun og að ekkert samræmi hafi verið á milli áætlana og rauntalna frá fyrsta degi. Ríkisendurskoðun segir alla málsmeðferð gallaða og í andstöðu við fyrirmæli fjárreiðulaga.

Afhendir ekki skýrsludrögin

Gunnar H. Hall fjársýslustjóri er eini maðurinn sem Ríkisendurskoðun hefur leyft að skoða skýrsludrögin. Drögin hafa ekkert breyst í þrjú ár. Nú þegar málið er komið í hámæli segir ríkisendurskoðandi að drögin verði send út til andmæla á næstu dögum, en enginn hefur fengið þau til andmæla í heil þrjú ár. „Við höfum fylgst með þessari skýrslu og breytingum og reynt að þoka henni áleiðis.“

Hávær krafa kom fram á meðal þingmanna í dag um að fá skýrsludrögin afhent, enda væri þetta mál eitt mesta klúður í íslenskri stjórnsýslu fyrr og síðar, eins og einn þingmaður kallaði það. Ríkisendurskoðandi ítrekaði oft á fundinum að þingmenn fengju ekkert úr skýrslunni fyrr en málsaðilar hefðu fengið að njóta andmælaréttar.

Björn Valur Gíslason tekur hins vegar undir kröfur samþingmanna sinna um að þingmenn fái skýrsludrögin afhent.

Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi