Trump vill „opna landið" en COVID-19 færist í aukana

epa08316963 US President Donald J. Trump participates in a news briefing with members of the Coronavirus Task Force at the White House, Washington, DC, USA, 23 March 2020.  EPA-EFE/Chris Kleponis / POOL
Trump á fréttamannafundi um COVID-19 í Hvíta húsinu að kvöldi 23. mars. Í bakgrunni eru Mike Pence, varaforseti, sem stjórnar viðbrögðum Bandaríkjastjórnar við faraldrinum, og William P. Barr, dómsmálaráðherra Mynd: EPA-EFE - Polaris POOL
Í Bandaríkjunum fer hvorutveggja smittilfellum og dauðsföllum af völdum COVID-19 ört fjölgandi og stjórnvöld einstakra ríkja grípa til æ harðari aðgerða til að hefta útbreiðslu kórónuveirunnar sem veldur þessari banvænu farsótt. Donald Trump, Bandaríkjaforseti, lýsti því hins vegar yfir á fréttamannafundi í Hvíta húsinu í gærkvöld, að þess væri vonandi skammt að bíða að landið yrði opnað á ný og atvinnu- og viðskiptalíf í Bandaríkjunum kæmist í samt lag.

Lækningin má ekki vera verri en vandinn sem hún leysir

Seint á sunnudagskvöld skrifaði forsetinn á Twitter að „lækningin [mætti] ekki vera verri en vandinn sjálfur,“ og sagði að ákvörðun um framhaldið yrði tekin þegar „15 daga tímabilinu“ lýkur.

Þarna vísar hann til fyrirmæla Sóttvarnastofnunar Bandaríkjanna frá 16. mars, þar sem meðal annars er mælst til þess að fólk vinni að heiman sé þess nokkur kostur og að forðast skuli samkomur fleiri en tíu í senn.

„Ef læknarnir fengju að ráða,“ sagði forsetinn á fréttamannafundinum í gær, „þá segja þeir kannski, höldum þessu lokuðu - við skulum loka öllum heiminum. En þú getur ekki lokað heilu landi - sérstaklega ekki landinu með stærsta efnahagskerfi heimsins,“ sagði Trump, sem viðurkenndi þó að vandamálið væri hvorttveggja alvarlegt og flókið.

Alstaðar verið að herða á aðgerðum vegna farsóttarinnar

Yfirvöld í einstökum ríkjum virðast vera á annarri línu en forsetinn og herða nú hvert af öðru á aðgerðum sínum til að hefta útbreiðslu veirunnar. Útgöngu- og/eða samkomubönn eru ýmist sett á eða hert enn frá því sem fyrir var og ýmist er dregið úr margvíslegri opinberri þjónustu eða hún lögð alveg af.

Þá er æ fleiri fyrirtækjum gert að hætta starfsemi og loka dyrum sínum fyrir almenningi til að draga úr samskiptum fólks og þar með smithættu. Þetta á við um verslanir aðrar en þær sem selja nauðsynjavörur, veitinga- og skemmtistaði, líkamsræktarstöðvar, iðnfyritæki og skrifstofur og svo mætti áfram telja.

Yfir 100 dauðsföll í gær

Í gær dóu 120 manns úr COVID-19 á einum sólarhring í Bandaríkjunum og hafa aldrei verið fleiri. Dauðsföll eru því orðin rúmlega 500, langflest í New York, eða 157. Staðfest smit eru komin yfir 46 þúsund, fleiri en nokkurs staðar utan Kína og Ítalíu.

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi