Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Trump vill geimher í bandaríska herinn

19.02.2019 - 23:37
Mynd með færslu
 Mynd:
Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur undirritað forsetatilskipun þar sem hugmyndir hans um sérstakan geimher eru raktar. Fjölmiðlar vestanhafs kalla nýja herinn „Space Force“ og segja hann geti orðið að sérstakri deild innan bandaríska hersins eins og sjóherinn eða landherinn.

Hlutverk geimhersins á að vera að vernda gervitungl og standa vörð um hættusvæði fyrir Bandaríkin í geimnum. Þá er geimhernum ætlað að tryggja yfirráð Bandaríkjanna utan lofthjúps Jarðar.

Trump segir að Bandaríkin þurfi að vera reiðubúin. „Ríkisstjórnin mín er búin að gera stofnun geimhers að þjóðaröryggismáli,“ segir hann.

Bandaríska þingið þarf, miðað við forsetatilskipunina, að taka til umfjöllunar lagafrumvarp þar sem geimherinn er felldur undir stjórn flughersins, rétt eins og sjóherinn hefur yfirstjórn með landgönguliði hersins. Varnarmálaráðuneytið í Pentagon mun hefjast handa við gerð lagafrumvarpsins á næstu vikum, segir Charlie Summers, talsmaður ráðuneytisins.

Geimherinn verður hins vegar aldrei að veruleika nema fulltrúadeild bandaríska þingsins samþykki áformin. Þingmenn og yfirmenn varnarmála í Bandaríkjunum eru sagðir efins um áformin og benda á gríðarlegan kostnað og aukið skrifræði sem fylgi aukinni hervæðingu geimsins.

Geimurinn er mikilvægt áhrifasvæði nútímahernaðar, hvar sem drepið er niður fæti. Hertækni nútímans byggist að nær öllu leyti tækni sem reiðir sig á net gervitungla og skynjara á braut um jörðu. Varnarmálaráðuneytið bandaríska hefur varað við því að ríki á borð við Rússland og Kína hafi unnið að smíði vopna sem geti grandað gervitunglum.