Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Trump varð við beiðni Kardashian

06.06.2018 - 23:31
Mynd með færslu
 Mynd: Hvíta Húsið/Einkasafn
Donald Trump Bandaríkjaforseti varð í dag við beiðni raunveruleikastjörnunnar Kim Kardashian West um að milda dóm yfir Alice Marie Johnson, langömmu á sjötugsaldri, sem hlaut lífstíðardóm fyrir minni háttar fíkniefnabrot á tíunda áratug síðustu aldar.

Kardashian fundaði með Trump í síðustu viku. Þau ræddu endurbætur í fangelsismálum, og sérstaklega mál Johnson. Hvíta húsið tilkynnti svo í dag að dómur Johnson hefði verið mildaður. 

„Þessi ríkisstjórn mun ávallt taka harða stefnu í afbrotamálum, en við erum þó þeirrar skoðunar að þeir sem greitt hafa skuld sína við samfélagið og unnið hart að því að bæta sig eigi skilið annað tækifæri,” sagði í tilkynningunni.

Kardashian færði Johnson tíðindin sjálf og greindi frá samtalinu á Twitter. „Símtalið sem ég átti nú rétt í þessu við Alice mun ávallt vera ein af mínum bestu minningum. Að segja henni fréttirnar, heyra gleðihrópin og gráta með henni er stund sem ég mun aldrei gleyma.“ 

Kardashian deildi myndbandi um mál Johnson á Twitter í október í fyrra. Saga Johnson, sem hlaut lífstíðardóm vegna lögboðinnar lágmarksrefsingar við fíkniefnabrotum, snerti við Kardashian og hafði hún heitið að gera allt sem í hennar valdi stæði til fá dóm hennar mildaðan.

Lífstíðardómur fyrir fyrsta brot

Johnson giftist aðeins fimmtán ára gömul en skildi við mann sinn 1989, og varð hún þá einstæð móðir fimm barna. Stuttu seinna missti hún vinnu sína hjá FedEx, eftir tíu ár í starfi, og litlu eftir það ungan son sinn í umferðarslysi.

Eftir vinnumissinn átti hún erfitt með að finna annað starf og lýsti að lokum yfir gjaldþroti. Húsnæðislaus og ein með fimm börn, flæktist Johnson inn í umfangsmikinn eiturlyfjahring. Eftir aðeins nokkra mánuði var hún handtekin ásamt fleiri meðlimum hringsins.

Hún viðurkennir þátttöku sína en segist þó aldrei hafa meðhöndlað fíkniefni sjálf, aðeins hafa verið milliliður sem kom skilaboðum áfram og var þetta hennar fyrsta lögbrot. Aðrir sakborningar í málinu báru hins vegar vitni gegn henni í skiptum fyrir vægari dóma, og fékk hún því lífstíðardóm.

Johnson tekur fulla ábyrgð á glæp sínum, og sagði við ACLU, „ég veit það nú að ég er alveg jafn sek og ef ég hefði selt efnin sjálf.”  

Henni finnst hún þó eiga skilið tækifæri til að bæta ráð sitt, og hefur lengi unnið sjálfboðaliðastarf innan fangelsisins, aðstoðað aðra fanga við nám, skrifað leikrit og verið vígð sem prestur.

„Þó svo að ég hafi ekki haft neinn dag til að hlakka til, þegar ég fengi að fara héðan, hef ég samt viljað vinna að því að verða betri manneskja.”

 

Emilía Sara Ólafsdóttir Kaaber
Fréttastofa RÚV