Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Trump tekur sér stöðu með Sádum

20.11.2018 - 19:20
Mynd með færslu
 Mynd:
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, hefur tekið sér stöðu með stjórnvöldum í Sádi-arabíu, þrátt fyrir að alþjóðasamfélagið hafi fordæmt ríkið fyrir morðið á blaðamanninum Jamal Khashoggi. Trump segir í tilkynningu að konungsveldið Sádi-arabíu sé staðfastur félagi Bandaríkjanna á alþjóðavettvangi og hafi ákveðið að fjárfesta fyrir metfé í Bandaríkjunum.

Sádi-arabíski blaðamaðurinn Jamal Khashoggi var myrtur í sendiráði Sádi-arabíu í Istanbúl í Tyrklandi í byrjun október. Hann hafði verið búsettur í Bandaríkjunum og starfaði við bandaríska fjölmiðla. Upphaflega sóru stjórnvöld í Sádi-arabíu morðið af sér en viðurkenndu síðar að fulltrúar leyniþjónustu landsins hefðu myrt Khashoggi, án þess þó að hafa fengið fyrirmæli um það.

Frá þessu er meðal annars greint á vef breska ríkisútvarpssins.

Krónprinsinn Mohammed bin Salman er ekki sagður hafa vitað af morðinu fyrr en frá því var sagt í fjölmiðlum. CIA, leyniþjónusta Bandaríkjanna, telur hins vegar að krónprinsinn hafi sjálfur fyrirskipað morðið. Trump viðurkennir í tilkynningunni sem birtist í kvöld að það gæti verið að krónprinsinn hafi vitað af morðinu, „en kannski gerði hann það ekki!“.

Trump tekur stöðu með Sádi-arabíu vegna þess að ríkið standi með Bandaríkjunum gegn Íran. Þá leggur Trump áherslu á að arabískar fjárfestingar og vopnakaup í Bandaríkjunum. „Ef við verðum svo kjánaleg að hætta við þessa samninga munu Rússland og Kína hagnast gríðarlega.“

Mynd með færslu
 Mynd:
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna.