Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Trump styður ekki sameiginlega yfirlýsingu G7

09.06.2018 - 23:17
Erlent · G7
epa06797187 US President Donald Trump speaks to media as he departs the G7 summit in Charlevoix in Canada 09 June 2018. The G7 Summit runs from 8 to 9 June in Charlevoix, Canada.  EPA-EFE/NEIL HALL / POOL
 Mynd: EPA-EFE - EPA POOL
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, segist búinn að biðja þingmenn Bandaríkjaþings um að styðja ekki sameiginlega yfirlýsingu leiðtoga G7 ríkjanna. Hann segir Justin Trudeau, forsætisráðherra Kanada, hafa logið á blaðamannafundi að leiðtogafundinum loknum og Kanada leggi háa tolla á bandarískar vörur.

Trudeau tilkynnti eftir leiðtogafundinn í kvöld að Kanada hyggist leggja sambærilega tolla á stál og ál og Bandaríkin hafa lagt á nágrannaríki sín. Hann sagði tolla Bandaríkjanna móðgandi, en Trump notar ákvæði um ógn við þjóðaröryggi til þess að leggja innflutningstolla á vörurnar.

Trump segir tón Trudeau hafa verið mildan og bljúgan á leiðtogafundinum. Honum finnst því óheiðarlegt af Trudeau að segja tolla Bandaríkjanna móðgandi og að Kanada verði ekki hent til og frá í samningaviðræðum. Þá segir Trump að Bandaríkin séu enn að skoða að leggja tolla á innflutta bíla og núverandi tollar á stál og ál séu til að svara 270 prósenta innflutningstollum Kanada á mjólkurvörum.

Tilkynning var send út frá skrifstofu kanadíska forsætisráðherrans skömmu síðar. Þar sagði að Trudeau hafi ekkert sagt á blaðamannafundinum sem hann hafði ekki sagt Bandaríkjaforseta áður, hvort sem það var opinberlega eða á einkafundum þeirra. 

Trump lagði fram tillögu á fundinum í dag, um að G7 ríkin felldu niður alla tolla og aðrar viðskiptahindranir sín á milli. Tillagan hlaut engan hljómgrunn meðal þeirra.