Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Trump segir framtíð N-Kóreu geta verið glæsta

27.02.2019 - 04:54
Mynd með færslu
 Mynd:
Donald Trump spáir frábærri framtíð í Norður-Kóreu ef vinur hans, Kim Jong-Un, samþykkir að gefa kjarnavopnabúr sitt eftir. Trump skrifaði þetta á Twitter í nótt, en hann lenti í Víetnam í gærkvöldi þar sem önnur ráðstefna hans og Kims, leiðtoga Norður-Kóreu, á innan við ári verður haldin.

Trump hefur áður greint frá einstöku sambandi hans við Kim, eftir fund þeirra í Singapúr í júní í fyrra. Síðan þá hefur hann sagt að Norður-Kórea gæti orðið stórkostlegt efnahagsveldi undir stjórn leiðtogans. Hann skrifaði á Twitter í nótt að möguleikarnir séu frábærir, og útkoman gæti orðið söguleg fyrir vin hans.

Ráðstefna leiðtoganna stendur yfir í tvo daga. Eftir fyrri fund þeirra í Singapúr undirrituðu þeir Trump og Kim sáttmála um að Norður-Kórea myndi vinna að afkjarnorkuvæðingu Kóreuskaga. Lítið hefur miðað síðan þá þar sem stjórnvöld ríkjanna eru ósammála um þýðingu þess. Nú segist Trump verða ánægður ef stjórnvöld í Pyongyang halda aftur af kjarnavopna- og flugskeytatilraunum sínum eins og þau hafa gert síðasta rúma árið. Að sögn AFP fréttastofunnar er búist við því að Bandaríkjaforseti ætli að bjóða Kim afléttingu hluta viðskiptahafta gegn ríkinu ef norður-kóresk stjórnvöld eru reiðubúin að eyðileggja kjarnorkuver sitt í Yongbyon, hleypa alþjóðlegum eftirlitsmönnum inn í landið, eða afhenda lista yfir allar kjarnorkubirgðir ríkisins.