Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Trump og Voldemort bornir saman

Mynd: EPA/Universal / EPA/Universal

Trump og Voldemort bornir saman

08.11.2017 - 16:36

Höfundar

Eitt ár er liðið síðan Donald Trump var kjörinn forseti Bandaríkjanna. Síðan þá hafa aðdáendur Harry Potter bókanna keppst við að líkja forsetanum við helsta illmenni bókanna, sjálfan Voldemort.

Í desember 2015, þegar Trump var varla kominn inn í kapphlaup Repúblikana um Hvíta húsið, hvatti Trump til þess að múslimar væru bannaðir frá Bandaríkjunum. J.K. Rowling, höfundur bókanna um Harry Pottir, brást við fréttum af yfirlýsingu Trumps á Twitter.

„Hversu hræðilegt,“ sagði hún. „Voldemort var hvergi nærri eins slæmur.“

Bandarískar fréttasíður hafa sumar hverjar til dæmis sett á fót spurningaleiki þar sem giskað er á hvor sagði hvað, Donald Trump eða Voldemort. En er hægt að bera Bandaríkjaforseta saman við Voldemort, eitt helsta illmenni nútímabókmennta?

Þeir eru til sem hafa mótmælt þessari samlíkingu harðlega. Blaðamaðurinn Corey Atad hefur til að mynda sagt að aldamótakynslóðin, sem héldi sem mest upp á Harry Potter, þurfi að stíga inn í raunveruleikann. Heimurinn sé ekki svarthvítur. Staðreyndin sé sú að fasískur forseti hafi verið kosinn til embættis, það sé raunveruleikinn. „Donald Trump er ekki Voldemort. Donald Trump er raunverulegur.“

Harry Potter bækurnar voru vitanlega skrifaðar áður en Donald Trump var kjörinn forseti og raunin er sú að sögurnar byggja að miklu leyti á raunverulegum atburðum. Í sögunni eru ótal tengingar við helförina og Þýskaland nasismans.

Barátta illskunnar, Voldemorts og fylgisveina hans, snýst um yfirburði galdrakynsins yfir muggum, þeim hluta mannkyns sem ekki kann að galdra. Þeir vilja afnema skilin á milli galdraheimsins og tryggja fullkomið vald yfir þeim vangöldróttu. Þvert á það sem raunverulega er satt og rétt, er það upplifun þeirra að galdramenn hafi þurft að bugta sig og og beygja fyrir öryggi og vernd mugganna. Alveg eins og bandarísku þjóðernissinnuðu muggarnir sem í dag telja að mannréttindi minnihlutahópa þýði að þeir beri skarðan hlut frá borði. 

Hugmyndafræðin byggir á hreinstefnu, hugmyndinni um hreint og ómengað blóð galdramanna, og raunar, þó J.K. Rowling, höfundur ævintýrisins fullyrði að það sé tilviljun, voru meintir mengunarvaldar blóðsins þeir sömu hjá nasistum og galdramönnum sem aðhylltust stefnuna um hreint blóð. Það þurfti ekki meira en að eiga afa eða ömmu sem var gyðingur til að vera í bráðri lífshættu í Þýskalandi nasismans.

Meira að segja fangelsið sem Gellert Grindelwald, hitt galdraillmennið sem var uppi á sitt besta löngu á undan Voldemort, byggði en þurfti svo að dúsa ævi sína á enda í, hét Nurmengard. Skuggalega líkt Nürnberg þar sem miðja áróðurstríðs nasista átti sér stað en endaði svo sem helsta sögusvið Nürnberg-réttarhaldanna þar sem menn voru dæmdir fyrir stríðsglæpi framda í síðari heimsstyrjöldinni. 

Sá sami galdramaður, Gellert Grindelwald, tók sér merki dauðadjásnanna þriggja; þríhyrning sem skipt er í tvennt með beinni línu og hring í miðjunni, og gerði það að sínu. Fyrir flesta venjulega galdramenn hafði merkið fyrst og fremst tengingu við barnasögu en í hans fórum varð það tákn um ógnarvald. Ekki ósvipað hakakrossi nasista sem er í raun eitt heilagasta merki hindúatrúar og búddisma en hefur nú um allan heim yfir sér hræðilega áru helfararinnar.

Þá eru andspyrnuhreyfingarnar, leynilegar útvarpsstöðvar, leynilegar bréfsendingar og flótti frá Gestapó galdraheimsins, allt kunnugleg minni sem koma fyrir í ævintýrinu um Harry Potter. 

Farið var yfir samanburðinn á Donald Trump og Voldemort og velt fyrir sér hvort hann eigi rétt á sér í Lestinni á Rás 1.