Trump náðaði „andlit spillingarinnar“ í Illinois

Former Gov. Rod Blagojevich arrives to Denver International Airport on Tuesday, Feb. 18, 2020 in Denver. Blagojevich walked out of prison after President Donald Trump cut short the 14-year prison sentence handed to the former Illinois governor for political corruption. (Erin Hooley/Chicago Tribune via AP)
Blagojevich (t.h.) á flugvellinum í Denver í gær, skömmu eftir að hann var látinn laus. Mynd: AP
Donald Trump, Bandaríkjaforseti, veitti í gær ellefu dæmdum mönnum sakaruppgjöf, þar á meðal fyrrverandi ríkisstjóra Illinois, sem dæmdur var fyrir að reyna að „selja“ öldungadeildarþingsætið sem losnaði þegar Barack Obama var kosinn forseti. Rod Blagojevich, Demókrati og ríkisstjóri í Illinois, er af mörgum álitinn holdgervingur pólitískrar spillingar og óheiðarleika og ófá flokkssystkini forsetans hafa gagnrýnt hann fyrir náðunina.

Þingflokkur Repúblikana í fulltrúadeildinni sendi frá sér yfirlýsingu, þar sem Blagejovich er sagður „andlit spillingarinnar í stjórnkerfi Illinois og hann hefur aldrei sýnt vott af iðrun.“ Trump gefur lítið fyrir slíkar yfirlýsingar og sagði á fréttamannafundi að Blagejovic hefði fengið „gríðarlega þungan, fáránlegan dóm,“ fyrir brot sín.

Ætlaði að selja öldungadeildarsæti

Þegar Obama, þá öldungadeildarþingmaður Illinois-ríkis, var kjörinn forseti árið 2008 féll það í hlut ríkisstjórans Blagojevich að útnefna eftirmann hans. Hann lýsti áformum sínum um að selja útefninguna til öldungadeildarinnar í samtali við annan, háttsettan embættismann, sem vitnaði gegn honum í framhaldinu.

Þetta var ekki eina brotið sem Blagejovich var sakfelldur fyrir, því hann var einnig fundinn sekur um mútuþægni, tilraun til fjárkúgunar og skjalafals, og dæmdur til 14 ára fangelsisvistar árið 2012.

Segir Stone ekki hafa fengið réttláta meðferð 

Forsetinn náðaði 10 dæmda sakamenn til viðbótar í gær, þar á meðal Bernie Kerik, fyrrverandi lögreglustjóra New York. Kerik, sem er góður vinur Rudys Giulianis, eins nánasta ráðgjafa Trumps og fyrrverandi borgarstjóra í New York, var dæmdur fyrir skattsvik og fleiri brot árið 2010.

Í frétt AFP segir að vangaveltur séu uppi um að Trump hyggist náða þá Roger Stone og Paul Manafort, sem báðir voru dæmdir í fangelsi vegna brota sem upp komust í víðtækri rannsókn FBI og sérstaks saksóknara á afskiptum Rússa af forsetakosningunum 2016. Manafort var kosningastjóri Trumps um hríð og Stone var í ráðgjafaliði kosningateymisins. 

 Á blaðamannafundinum svaraði Trump spurningu um hvort hann hygðist náða Stone, á þann veg, að hann hefði „ekkert hugsað út í það,“ en teldi Stone „ekki hafa notið réttlætis.“ Litlu síðar bætti forsetinn um betur á Twitter. Þar sagði hann allt sem tengdist „þessari sviksamlegu rannsókn [á afskiptum Rússa af kosningunum] illa rotið“ og því ætti, að hans mati, að ógilda allt sem á henni er byggt.   
 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi