Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Trump má deila þeim upplýsingum sem hann vill

16.05.2017 - 17:00
H.R. McMaster
H.R. McMaster, þjóðaröryggisráðgjafi Bandaríkjanna, lætur af embætti 4. apríl. Í bakgrunni er Sean Spicer, fyrrverandi fjölmiðlafulltrúi Hvíta hússins. Mynd: EPA
Demókratar hafa lýst þungum áhyggjum af meðferð Donalds Trumps Bandaríkjaforseta á trúnaðarupplýsingum. Repúblikanar hafa krafist skýringa. Þjóðaröryggisráðgjafi forsetans segir hins vegar að Trump hafi ekki gert neitt óviðeigandi.

Washington Post greindi frá því í gærkvöld að Donald Trump hafi deilt viðkvæmum trúnaðarupplýsingum með Rússum, á fundi með utanríkisráðherra Rússlands í síðustu viku. Upplýsingarnar komu frá bandalagsríki Bandaríkjanna sem ekki hafði gefið grænt ljós á að upplýsingunum yrði deilt með Rússum.

Segja málið afar alvarlegt

John McCain, einn af forystumönnum Repúblikana sagði í yfirlýsingu síðdegis að málið sé afar alvarlegt. Það að upplýsingum, sem fengust frá bandalagsríki Bandaríkjanna, hafi verið deilt með Rússum, án samráðst, sé alvarlegt mál. Það sendi vafasöm skilaboð til bandalagsríkja og samstarfsríkja um allan heim og geri þeim erfiðara fyrir að deila upplýsingum með Bandaríkjunum.

epa05952888 Senate Armed Services Committee Chairman, Republican Senator from Arizona John McCain (R) listens to testimony from Commander of the United States Cyber Command, Director of the National Security Agency (NSA) and Chief of Central Security
John McCain, öldungadeildarþingmaður Repúblikana. Mynd: EPA

Forseti fulltrúardeildar þingsins, Repúblikaninn Paul Ryan, hefur óskað eftir skýringum frá forsetanum. Demókratar á Bandaríkjaþingi segja málið háalvarlegt. 

Forseti má deila þeim upplýsingum sem hann telur rétt

Annan tón kveður við í  Hvíta húsinu. H.R. McMaster, þjóðaröryggisráðgjafi forsetans, sagði blaðamönnum í dag að Trump hafi ekki deilt neinum upplýsingum sem ekki sé í lagi að deila. Hann sagðist engar áhyggjur hafa af því að önnur ríki kunni að verða tregari til þess á næstunni að deila upplýsingum með Bandaríkjunum.

Washington Post upplýsti um málið í gærkvöld. Í kjölfar þess McMaster að fréttir blaðsins væru rangar. „Ég var í herberginu og þetta gerðist ekki" sagði hann um frétt blaðsins.

Þegar McMaster var spurður út í þessi orð sín í dag, skýrði hann þau þannig að frétt Washington Post hafi byggt á röngum forsendum. Forsetinn megi deila þeim upplýsingum sem hann vill. Þá sagði McMaster að mikilvægara væri að ræða það hvernig öryggi Bandaríkjanna sé stofnað í hættu af þeim sem leki upplýsingum til fjölmiðla.

Ekki ákveðið fyrir fundinn að deila upplýsingunum

McMaster upplýsti í dag að ákvörðun um að upplýsingum með Rússum hafi ekki verið tekin fyrir fund Trumps Bandaríkjaforseta með Sergei Lavrov, utanríkisráðherra Bandaríkjanna. Trump hafi einfaldlega ákveðið, á fundinum, í framhaldi af samræðum sínum við Lavrov, að upplýsa rússneska utanríkisráðherrann.

Samkvæmt Washington Post kom þessi ákvörðun starfsmönnum Hvíta hússins í opna skjöldu og gerðu þeir í kjölfarið ráðstafanir til þess að takmarka skaðann, með því að hafa samband við leyniþjónustuna, CIA, og Þjóðaröryggisstofnunina, NSA.