Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Trump gerir „eitthvað“ til að stöðva aðskilnað

20.06.2018 - 17:25
President Donald Trump speaks during a meeting with Republican members of Congress on immigration in the Cabinet Room of the White House, Wednesday, June 20, 2018, in Washington. From left, Sen. Jim Inhofe, R-Okla., Trump, and Rep. Mac Thornberry, R-Texas
 Mynd: AP
Heimildarmaður í Hvíta húsinu segir að Donald Trump Bandaríkjaforseta undirbúi nú tilskipun sem myndi gera fjölskyldum, sem komið hafa ólöglega til Bandaríkjanna, kleift að halda hópinn. Sögur af aðskilnaði barna og foreldra á landamærum Bandaríkjanna og Mexíkó hafa vakið mikla reiði um heim allan undanfarið. Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra, segir aðgerðirnar ómannúðlegar og ríkisstjórn Íslands hvetji bandarísk stjórnvöld til að láta af þeim.

„Við munum undirrita tilskipun bráðlega. Við þurfum að halda fjölskyldum saman,“ sagði Trump á stuttum blaðamannafundi í dag. „Ég mun skrifa undir eitthvað á næstunni. Ég mun gera eitthvað og á endanum verður örugglega líka frumvarp samþykkt, ég er viss um það.“

Forsetinn hefur þó lýst harðri andstöðu við stefnu forvera síns, Baracks Obama, í þessum málaflokki. Vegna laga um varðhald barna, er ólöglegt að vista börn í fangabúðum í lengur en 72 klukkustundir, og því hefur fjölskyldum hingað til verið sleppt að þeim tíma loknum, að því gefnu að þau mæti fyrir innflytjendarétt. 

Óvíst er hvernig tilskipunin mun gera Trump annað kleift en snúa aftur til þeirrar stefnu. Einnig er líklegt að hann mæti mótstöðu, en óvissa og ágreiningur hafa ríkt undanfarin ár um umboð forsetans til að taka ákvarðanir af þessu tagi í málefnum innflytjenda.

Greidd verða atkvæði um frumvarp um breytingar á innflytjendalögum í fulltrúadeild Bandaríkjaþings á morgun. Tilkynning Trumps gefur til kynna að frumvarpið sé hugsanlega enn ekki þóknanlegt öllum flokksbrotum Repúblikana, og verði ekki samþykkt í núverandi mynd.