Trump fór í óvænta heimsókn til Afganistans

President Donald Trump, left, listens as Afghan President Ashraf Ghani, right, addresses members of the military during Trump's surprise Thanksgiving Day visit, Thursday, Nov. 28, 2019, at Bagram Air Field, Afghanistan. (AP Photo/Alex Brandon)
Forsetarnir tveir, Donald Trump og Ashraf Ghani, á Bagram-herflugvellinum í útjaðri Kabúl. þar sem Trump gerði óvæntan og stuttan stans á þakkargjörðardeginum ameríska. Mynd: AP
Donald Trump Bandaríkjaforseti fór í óvænta heimsókn til Afganistan í gær, þar sem hann heimsótti liðsmenn Bandaríkjahers í tilefni þakkargjörðardagsins og átti fund með Ashraf Ghani, forseta Afganistans. Þetta er fyrsta heimsókn Trumps til Afganistans og gerði hann engin boð á undan sér, af öryggisástæðum.

Forsetinn ávarpaði bandaríska hermenn á Bagram-herflugvellinum, nærri Kabúl, og sagði Bandaríkin og talibana hafa átt í viðræðum um vopnahlé  að undanförnu. Fullyrti forsetinn að talibanar vildu ólmir semja og greindi líka frá því að hann hygðist fækka verulega í liði Bandaríkjahers í Afganistan á næstunni. Þar eru nú um 13.000 bandarískir hermenn, átján árum eftir að Bandaríkjaher réðist inn í landið í kjölfar árásarinnar á Tvíburaturnana í New York árið 2001.

„Við erum að funda með þeim [talibönunum] og við segjum að það verði að vera vopnahlé og þeir vildu ekki gera vopnahlé og núna vilja þeir gera vopnahlé," sagði forsetinn í ávarpi sínu. „Ég held að það muni líklega enda þannig," bætti hann við.

Skar kalkúninn oní mannskapinn

Trump aðstoðaði svo við að afgreiða þakkargjörðarkalkúninn áður en hann settist að snæðingi með hermönnunum og Ashraf Ghani, forseta Afganistans, sem tók einnig þátt í þakkargjörðarmáltíðinni. Ghani notaði tækifærið til að þakka bandarískum hermönnum fyrir sitt framlag um leið og hann lagði áherslu á að afganski herinn stjórnaði nú aðgerðum gegn talibönum í landinu.

Viðræður Bandaríkjamanna við talibana fóru út um þúfur í september og þann mánuð, í aðdraganda forsetakosninganna, gerðu þeir fjölda mannskæðra hryðjuverkaárása. Ekki kom fram í máli forsetans, hversu stífar eða árangursríkar viðræður síðustu daga eða vikna hefðu verið, eða hvar þær hefðu farið fram.

Stutt ferð en afar leynileg

Trump gerði stuttan stans í Afganistan að þessu sinni. Hann flaug frá Flórída með mikilli leynd í skjóli nætur, lenti í Afganistan klukkan hálfníu að kvöldi fimmtudags að staðartíma og var floginn á braut á ný fyrir miðnætti. Hvíta húsið staðfesti að gerðar hefðu verið ráðstafanir til að setja nokkrar færslur frá forsetanum inn á Twitter-síðu hans á meðan á ferðinni stóð, til að koma í veg fyrir að þögn hans á þeim vettvangi vekti athygli eða grunsemdir. 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi