Donald Trump sagði á fundi með stuðningsfólki í Phoenix í Arizona-fylki í gærkvöld að fremst í forgangsröðinni væri að reisa múr á suðurlandamærunum og var vel fagnað. Hann lét fagna þessum ummælum vel og lengi. Ekki var minna fagnað þegar hann sagði að Mexíkóar myndu borga.
Trump á mjög undir högg að sækja meðal minnihlutahópa í baráttunni við Hillary Clinton, frambjóðanda Demókrataflokksins. Hann hefur reynt höfða til þeirra undanfarið og í því ljósi ber að líta að skotferð hans til Mexíkóborgar í gær. En allt virðist koma fyrir ekki. Rosario Marin, sem á ættir að rekja til rómönsku Ameríku, sagði að ef hann héldi að fólk í Mexíkó og Bandaríkjunum snerist hugur um hann, hefði hann algerlega rangt fyrir sér.
Mikill meirihluti Bandaríkjamanna frá rómönsku Ameríku styður Hillary Clinton. Tilraunir Trumps til að afla sér fylgis meðal svartra eða litaðra Bandaríkjamanna virðast heldur ekki bera árangur. Aðeins eitt prósent þeirra hyggst styðja Trump. Jerome Rains, atvinnurekandi í Pennsylvaníu ríki, er ómyrkur í máli þegar hann er spurður hvort hann telji að Trump fái einhver atkvæði meðal fólks sem skilgreinir sig, eins og Rains, sem Bandaríkjamenn af afrískum uppruna.
Í New York Times í dag eru skoðanakannanir síðustu daga bornar saman og kemst blaðið að þeirri niðurstöðu að 43 prósent kjósenda styðji Hillary Clinton og 39 prósent Trump. Samkvæmt kosningaspá blaðsins eru 87 prósent líkur á því að Clinton beri sigur úr býtum miðað við stöðuna eins og hún er nú.