Trump ekki herskár forseti

05.01.2020 - 17:23
Mynd: EPA / EPA
Stríðsrekstur í Miðausturlöndum þjónar ekki hagsmunum Donalds Trumps Bandaríkjaforseta ef hann vill tryggja sér sigur í kosningum í haust segir Albert Jónsson, sérfræðingur í alþjóðamálum og fyrrverandi sendiherra í Bandaríkjunum en við árás á sendiráð verði ekki unað. 

Donald Trump, forseti Bandaríkjanna fyrirskipaði drónaárás á bílalest nærri Bagdað-flugvelli í Írak. Árásin beindist að einum valdamesta herforingja Írans, Qasem Soleimani yfirmanni byltingarvarðliðsins. Hann féll þar við sjöunda mann. Í yfirlýsingu frá bandaríska varnarmálaráðuneytinu í Pentagon segir að Soleimani hafi ráðgert árásir á Bandaríkjamenn í Miðausturlöndum. Hann og sveitir hans hafi borið ábyrgð á dauða hundraða Bandaríkjamanna og sárum þúsunda.

Mótmælendur héldu sendiráði í gíslingu 

Á gamlársdag héldu mótmælendur bandarískum stjórnarerindrekum nánast föngnum í um sólarhring, þar sem þeir umkringdu sendiráðið í Bagdað og báru eld að byggingunni. Sóknin að sendiráðinu  var sögð svar við loftárásum Bandaríkjamanna í Írak og Sýrlandi milli jóla og nýárs þar sem 24 úr vígasveitum sem njóta stuðnings frá Íran voru felldir. Þær árásir viðbragð við falli bandarísks verktaka fyrir eldflaug í grennd við Kirkuk í norðurhluta Íraks.

Írakar óttast blóðugt stríð í sínu landi

Árásin á flugvöllinn hefur vakið hörð viðbrögð; forsætisráðherra Íraks sagt hana lýsa blygðunarlausum yfirgangi og vera brot á öryggissamningi Íraks og Bandaríkjanna og óttast blóðugt stríð Írans og Bandaríkjanna verði háð í Írak. Ráðamenn í Íran hafa sagst munu hefna Soleimanis af fullum þunga og margir óttast að átökin harðni enn og úr verði stríð. Albert Jónsson sérfræðingur í alþjóðamálum og fyrrverandi sendiherra í Bandaríkjunum segir að árás af hálfu Donalds Trumps komi ekki á óvart; við slíku viðbragði hefði mátt búast af fleiri Bandaríkjaforsetum segir Albert. 

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Vilhjálmur Þór Guðmun

 

Ekkert ríki getur sætt sig við aðför að sendiráði sínu

Aðdragandinn er aðför að sendiráði Bandaríkjamanna í Bagdað og það er mál sem ekkert ríki getur sætt sig við og alls ekki Bandaríkin. Hvað þá í Írak þar sem þau hafa náð stöðu segir Albert. Atlagan að sendiráðinu gerð fyrir tilstilli Írana. Trump ætli sér ekki í stríð. Hann ætlar að vera forseti Bandaríkjanna og hann hafi sagst ætla ða hætta endalausum styrjöldum í Miðausturlöndum. Í fyrri kosningabaráttu sinni hafi hann sagt að það ætti ekki að vera hlutverk Bandaríkjanna að fara um veröldina og  skipta um ríkisstjórnir eða skipta sér af innanríkismálum með hervaldi. 

Í ljósi sögunnar er aðför að sendiráði Bandaríkjamönnum sérstaklega viðkvæmt mál

Albert rifjar upp að ráðist var á sendiráð Bandaríkjanna í Líbíu fyrir nokkrum árum í utanríkisráðherratíð Hilary Clinton og sendiherrann myrtur.  Repúblikanar gagnrýndu hana harðlega fyrir það mál og eftirmál. Ef horft er lengra aftur til 1979 þegar bylting var gerð í Íran og klerkastjórnin komst til valda. Þá var bandaríska sendiráðið í Teheran hertekið af múg og diplómötum í gíslingu í ár.  Í ljósi þessarar sögu sé aðför að sendiráði Bandaríkjanna alveg sérstaklega viðkvæmt mál. Margt megi um Trump segja en hann sé ekki herskár. 

Trump aðhyllist skoðanir raunsæissinna í öryggismálum

Vandi Trumps er sá að ekki er vitað hvert viðbragðið verður og hvað það kallar mögulega á. Albert segir að ekki megi gleyma hugmyndafræðinni sem að baki liggur. Í kosningabaráttu sinni hafi Trump bergmálað skoðanir svokallaðra raunsæissinna í öryggis- og varnarmálum sem hafi árum saman talað fyrir því að Bandaríkjamenn eigi ekki að beita hervaldi til að skipta út stjórnvöldum í öðrum löndum. Það þjóni ekki hagsmunum Bandaríkjanna og strandi alltaf á því sama; þjóðernishyggju. Alveg sé sama hversu ósátt fólk sé við stjórnvaldið heima fyrir komi utanaðkomandi aðili og skipti sér af þá endi það alltaf í því að menn fylki sér um sinn heimamann. 

Trump verði að standa við kosningaloforð um að draga úr stríðsrekstri

Albert telur líkur á því að Trump hafi sigur í forsetakosningum í haust en til þess þurfi hann að vinna í lykilríkjum og fá kjósendur sína á kjörstað. Hann hafi sagt þeim að hann sé óvenjulegur forseti í því að hann efni sín kosningaloforð og eitt þeirra sé að fara ekki út í ævintýri og misheppnaða leiðangra eins og Írak og Afganistan sem kosti trilljónir dollara. Hann muni binda enda á þetta. Þetta sé ekki bara kosningataktík segir Albert heldur líka hugmyndafræði og árásirnar á sendiráðin í sögunni sem hafi sín áhrif.