Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Trump bjartsýnn á sameiginlega yfirlýsingu

09.06.2018 - 01:39
Erlent · G7
epa06794891 (L-R) European Council President Donald Tusk; British Prime Minister, Theresa May; German Chancellor, Angela Merkel; US President Donald J. Trump; Canadian Prime Minister, Justin Trudeau; French President Emmanuel Macron; Japanese Prime
 Mynd: EPA-EFE - EPA POOL
Leiðtogar G7 ríkjanna eru sammála um að viðræðum hafi miðað vel áfram í dag. AFP fréttastofan greinir frá þessu. Haft var eftir embættismanni af fundinum fyrr í dag að mikill ágreiningur hafi verið milli leiðtoganna, en Emmanuel Macron Frakklandsforseti vildi meina að viðræðurnar væru búnar að vera opnar og beinskeittar. 

Macron sagði enn margt órætt varðandi viðskipti á milli ríkjanna. Vitað var að þau yrðu mikið hitamál eftir að Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, lagði innflutningstolla á stál og ál frá Kanada, Mexíkó og Evrópusambandsríkjum um síðustu mánaðamót. Donald Tusk, forseti leiðtogaráðs Evrópusambandsins, sagði ljóst að gjá sé á milli Bandaríkjaforseta og annarra leiðtoga hvað varða milliríkjaviðskipti, málefni loftslagsbreytinga og kjarnorkusamninginn við Íran. Hann sagði að ef Trump heldur áfram á þessari braut eigi það aðeins eftir að leiða til þess að frjálslynt lýðræði og grundvallarfrelsi heyrir sögunni til í hinum vestræna heimi. 

Þrátt fyrir ágreininginn kvaðst Trump viss um að leiðtogarnir komi sér saman um sameiginlega yfirlýsingu að loknum fundinum á morgun. Á blaðamannafundi með Justin Trudeau, forsætisráðherra Kanada sér við hlið, sagði hann samband Bandaríkjanna við nágrannaríki sín aldrei hafa verið betri. Hann sagði fríverslunarsamning Norður-Ameríkuríkja, NAFTA, mögulega eiga eftir að líta öðruvísi út á næstunni, og spáði því að útkoman yrði jákvæð fyrir bæði Bandaríkin og Kanada.

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV