Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Trump alfarið á móti Evrópuher

10.11.2018 - 04:59
epa07154559 US President Donald J. Trump (R) and First Lady Melania Trump (L) disembark from Air Force One upon their arrival at Orly airport, near Paris, France, 09 November 2018. US President Trump along with other Heads of States and Governments will
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, segist sármóðgaður út í þær hugmyndir Evrópuríkja að stofna sam-evrópskan her sem yrði óháður Bandaríkjunum. Hann skrifaði á Twitter að Evrópuríki ættu fyrst að einbeita sér að því að borga fyrir sinn hlut í Atlantshafsbandalaginu.

Trump var vart lentur í París þegar hann sendi færsluna frá sér á Twitter. Þangað er hann kominn til að vera viðstaddur athöfn þar sem þess er minnst að öld er liðin frá stríðslokum fyrri heimsstyrjaldarinnar. Gestgjafi hans í Frakklandi, forsetinn Emmanuel Macron, viðraði hugmyndina um sameiginlegan Evrópuher á þriðjudag. Sagði hann slíkan her nauðsynlegan, sérstaklega í ljósi þess að Trump rifti kjarnavopnasamningi sem gerður var við Rússa undir lok kalda stríðsins. Macron sagði í útvarpsviðtali að Evrópuríki yrðu að verja sig gagnvart Kína og Rússlandi, jafnvel líka Bandaríkjunum.

Macron lítur sérstaklega til stofnunar hers níu ríkja. Auk Frakklands yrðu Þýskaland, Spánn, Holland, Belgía, Danmörk, Eistland og Portúgal hluti af hernum, auk Finna, sem yrði einnig óháður Atlantshafsbandalaginu. Hægt yrði að kalla heraflann saman á skömmum tíma, jafnt fyrir hernaðaraðgerðir, til þess að koma almennum borgurum á brott af stríðssvæðum, og flytja nauðstöddum neyðaraðstoð eftir náttúruhamfarir.

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV

Tengdar fréttir