Trúir því að klukkunni verði breytt

29.11.2017 - 10:35
Mynd: Óðinn Jónsson / Morgunvaktin
Það hefur lengi verið baráttumál sérfræðinga á sviði svefnrannsókna hérlendis að klukkunni verði breytt í samræmi við gang sólarinnar. Erla Björnsdóttir, sálfræðingur, á sæti í starfshópi sem heilbrigðisráðherra skipaði til að kanna ávinning af því fyrir lýðheilsu að leiðrétta klukkuna. Erla sagðist á Morgunvaktinni á Rás 1 bjartsýn á að farið yrði að ráðleggingum sérfræðinga.

„Við trúum því að það að vera svona á skjön við okkar líkamsklukku hafi ekki góð áhrif á okkur og það skapist ákveðin togstreita, sem búum stöðugt við, og hefur kannski mest áhrif á okkur á þessum tíma þegar við fáum enga morgunbirtu. Hún er mikilvægt merki fyrir líkamsklukkuna að stilla sig eftir, hefur áhrif á hormón í líkamanum sem heitir melatónín, sem er svefnhormón. Þegar birta berst til augnanna á morgnanna þá temprast þetta hormón. Það hjálpar okkur að vakna og eykur árvekni okkar og orku. En á morgnum eins og þessum er engin birta og þá er fólk orkulaust og þreytt fram eftir morgni,“ sagði Erla Björnsdóttir á Morgunvaktinni upp úr hálfátta þegar hún skýrði tengsl sólarljóss og líkamsklukkunnar í fáum orðum.

Erla er sálfræðingur og með doktorspróf í líf- og læknavísindum. Í starfi sínu sinnir hún fólki sem á erfitt með svefn og beitir huglægri atferlismeðferð, sem hún segir að þyrfti að vera miklu aðgengilegri í heilbrigðiskerfinu og myndi draga úr svefnlyfjanotkun. Það eru ekki síst unglingarnir sem fara illa út úr því að klukkan er ekki rétt á Íslandi miðað við sólargang og telja margir að það skýri að hluta mikið brottfall úr framhaldsskólum. Erla segir að dægursveifla ungs fólks sé önnur en þeirra fullorðnu. Hún leggur til að auk þess að leiðrétta klukkuna hefjist skóladagur unglinganna seinna en nú til að auðvelda þeim skólagönguna.

Það var ákveðið 1968 að festa Ísland á sumartíma og menn veltu ekki mikið fyrir sér afleiðingum á líkamsklukkuna. Það voru hagrænar ástæður, hagsmunir viðskipta- og atvinnulífs, sem réðu. Nú sýna rannsóknir eindregið að líkamsklukkan lagar sig að sólargangi. Það er dægursveifla í öllum frumum líkamans. Vísindamenn sem rannsökuðu líkamsklukku mannsins unnu til Nóbelsverðlauna á þessu ári.

„Við sem vinnum að rannsóknum á þessu sviði erum eingöngu að hugsa um lýðheilsuna,“ segir Erla og bendir á að þau sérfræðingarnir vilji að klukkunni sé breytt í eitt skipti fyrir öll, ekki sé hringlað með sumar- og vetrartíma. „Með þessari leiðréttingu um klukkustund erum við að fá morgunbirtu um sex vikum lengur í skammdeginu.“ Erla orðar rökin fyrir þessari tillögu einfaldlega þannig:

„Að vera í réttum takti.“

Starfshópurinn sem fjallar um ávinninginn af því að breyta klukkunni kemur saman í dag. Nýr heilbrigðisráðherra fær síðan tillögur hópsins. Erla segist mjög bjartsýn á að hlustað verði á ráðleggingar sérfræðinganna. Rökin séu sterk. „Ég trúi því að ég muni sjá þetta gerast – að klukkunni verði breytt.“

odinnj's picture
Óðinn Jónsson
dagskrárgerðarmaður
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi