Athugið þessi frétt er meira en 10 ára gömul.

Trúir á málefnanlega niðurstöðu

28.07.2012 - 18:12
Mynd með færslu
 Mynd:
Þingflokksformaður Vinstri grænna, segist ekki geta ímyndað sér að efnahags- og viðskiptaráðherra gefi Huang Nubo leyfi til að leigja Grímsstaði á Fjöllum. Þingflokksformaður Samfylkingarinnar kveðst trúa að málefnaleg niðurstaða náist.

Huginn Freyr Þorsteinsson, aðstoðarmaður Steingríms J. Sigfússonar, efnahags- og viðskiptaráðherra, og formanns Vinstri grænna, skrifaði um mál Huangs Nubos á Facebook-síðu sinni í dag. Þar spyr hann hvort einhverjum sé kunnugt um stuðning einhvers þingmanns VG við áform Huangs.

Björn Valur Gíslason, þingflokksformaður Vinstri grænna, segir að engar ívilnanir hafi verið veittar Huang. Hann segist ekki geta betur séð en að samningarnir við hann verði ekki undirritaðir.

Formaður þingflokks Samfylkingarinnar, Magnús Orri Schram segir að Samfylkingin hafi alltaf verið opin fyrir því að greiða götu erlendra fjárfesta á Íslandi. Það sé betra en að taka erlend lán.

Hinsvegar sé enn skortur á upplýsingum um fyrirætlanir Huangs Nubos á Grímsstöðum.

„Ég vil ekki gera mikið úr þeim ágreiningi um að það séu skiptar skoðanir innan stjórnmálaflokkana sem sitja í ríkisstjórn í dag. Ég hef fulla trú á því að við í Samfylkingunni sem og Vinstri græn munum ætíð taka málefnalega afstöðu til málsins. Menn munu alltaf vilja sjá hvað á að gera áður en menn taka afstöðu til þess hvort þeir eru samþykir þessu verkefni eða ekki. Þannig munum við í Samfylkingunni að minnsta kosti nálgast verkefnið.“