Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Trúgjarnasti maður Íslands hitti þann lygnasta

Mynd: Kiljan / RÚV

Trúgjarnasti maður Íslands hitti þann lygnasta

26.02.2018 - 11:46

Höfundar

Einhver furðulegasta og merkilegasta ævisaga sem komið hefur út á Íslandi er ævi séra Árna Þórarinssonar frá Stóra-Hrauni eftir Þórberg Þórðarson sem kom út í sex bindum á árunum eftir stríð. Um þá Þórberg og Árna var sagt að þar hefði trúgjarnasti maður á Íslandi hitt þann hraðlygnasta.

Í Kiljunni var farið í gamla Kolbeinsstaðahrepp, innst á Snæfellsnesi, þar er Eldborg á aðra hönd og Löngufjörur á hina. Þarna bjó á bæ sem kallast Stóra-Hraun séra Árni Þórarinsson. Hann var gríðarlegur sögumaður sem sat lengi á tali við Þórberg Þórðarsson og úr varð ævisaga séra Árna í mörgum bindum. Þetta er einkennilegt snilldarverk, Árni talaði og Þórbergur skrásetti af mikilli smámunasemi – og var sagt að hann væri meira að segja farinn að líkast Árna í hátt.

Mynd með færslu
 Mynd: Kiljan - RÚV
Árni Þórarinsson

Ævi Árna var um margt sérkennileg, hann var af snauðu fólki kominn, gekk samt í Lærða skólanna, var þingsveinn og kynntist Jóni Sigurðssyni, þótti skara fram úr í klassískum málum, en varð prestur í sveit og afar sérvitur. Ótal persónur koma við sögu í ævisögunni, þær skipta þúsundum, og honum liggur ekki vel orð til allra - frægasta bindið heitir Hjá vondu fólki.

Ekki bara háskalegt borgarkvendi

Spölkorn frá bústað Séra Árna er Litla-Hraun en þar uppfóstraðist rithöfundurinn Ásta Sigurðardóttir. Ásta bjó þarna fram á unglingsár, en lágreist húsið stendur enn. Það er farið í eyði, en innanstokks er nánast eins og fólkið hafi kvatt í skyndi. Þetta er magnaður staður, fáfarinn, það er mikil náttúrufegurð - í vestri gnæfir jökullinn, bærinn stendur í hrauni en með sjónum breiða sig út endalausar sandfjörur.

Mynd með færslu
 Mynd: Kiljan - RÚV
Ásta Sigurðardóttir

Sögur eru af því að Ásta hafi verið náttúrubarn sem hljóp berfætt um tún og móa og í textum eftir hana má finna einstakt næmi fyrir náttúrunni og frábæran orðaforða tengdan henni. Ásta hefur semsagt ekki bara verið hið háskalega borgarkvendi, eins og við þekkjum hana úr sögum og af myndum, heldur má greina mjög innileg tengsl við umhverfið í sveitinni og jökulinn – höfundarverk hennar hefði getað orðið býsna víðfemt ef henni hefði enst aldur til.