Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Truflun eða tækifæri? Sítenging breytir skólum

05.04.2017 - 16:43
Mynd: ruv / ruv
Reglur um snjalltækjanotkun í unglingadeildum eru mismunandi eftir grunnskólum. Sums staðar er einkum litið á tækin sem verkfæri og verkefnum jafnvel skilað á Instagram, annars staðar er litið á tækin sem truflun og reynt að koma böndum á notkun þeirra. Viðmælendur Spegilsins hafa ólíkar skoðanir á því hversu langt skuli ganga í snjalltækjavæðingu grunnskólans. Þeir eru sammála um að samskipti unglinga hafi breyst verulega á síðastliðnum árum. „Eins og við höfum gefið þeim róandi," segir einn.
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV

Í Borgarhólsskóla á Húsavík er snjallsíminn talsvert nýttur við kennslu á unglingastigi. Hjálmar Bogi Hafliðason er kennari þar. Í hans huga eru snjallsímar ekki vandamál. 

„Bara alls ekki, það er einmitt að nota tækið sem krakkar eiga, nota og umgangast, lifa með dagsdaglega, hjá mörgum er það þeirra besti vinur, einmitt að nota það sem tæki til að kenna, fræða, miðla og upplýsa."

Sú aðferðafræði sem Hjálmar fylgir hefur verið kölluð MET, eða með eigin tæki, hún felst í því að hver nemandi hafi snjalltæki til afnota allan sólarhringinn, sitt eigið eða lánstæki. 

Miðlar upplýsingum á Facebook

Hjálmar er með Facebook-hóp fyrir hvern árgang og notar Facebook til að miðla upplýsingum til nemenda fyrir og eftir kennslustund. Foreldrar hafa líka aðgang að þeim hópum. 

„Til að kveikja neista og áhuga fyrir kennslustund, þannig að nemandi komi áhugasamur og langi að koma í kennslustundina. Þar kannski hvíla menn símann og fá svo upplýsingar eftir kennslustund með meira ítarefni."

Stundum vinna unglingarnir með símann í tímum, fá jafnvel að skila verkefnum á Instagram en Hjálmar segist líka nota símann sem agastjórnunartæki, þá eru unglingarnir beðnir um að slökkva á símunum og setja þá á kennaraborðið. 

„Því óhjákvæmilega veldur tækið truflun. Áreitið á börn og unglinga í símunum er rosalega mikið, miklu meira en fullorðið fólk gerir sér grein fyriri held ég."

Hann telur að nemendur séu viljugri til þess að láta frá sér símann þegar þeir viti að í næsta tíma megi þeir nota hann. Þá heldur hann að símarnir kveiki meiri áhuga hjá nemendum en getur ekki svarað því hvort námsárangur hafi batnað, það sé ekki komin nægileg reynsla á það.

Freistandi að skrolla niður fréttaveituna 

En þegar símanotkun er leyfð í tímum, er þá ekki freistandi fyrir krakkana að fara að skrolla niður fréttaveituna eða senda skilaboð um eitthvað sem kemur náminu ekkert við. Jú, segir Hjálmar en þá er það bara mitt að gera kennsluna áhugaverða þannig að þau geri þetta ekki. Engin viðurlög séu við því að þvælast á Facebook í kennslustundum þegar símanotkun er heimil.

Hugsanlega stuðlar þetta að aukinni símanotkun

En er rétt að nota Facebook í skólastarfi - miðil þar sem verið er að auglýsa hitt og þetta og safna upplýsingum um notendur. Hjálmar sér ekkert athugavert við það. Með því sé höfðað til ábyrgðar barna og foreldra. Þetta sé sambærilegt því að horfa á sjónvarp eða vera í borðtölvu. Hann segir að með því að nota símann í skólastarfinu sé skólinn hugsanlega að stuðla að aukinni símanotkun. Líklega væru krakkarnir þó í símanum hvort eð er. Skólinn geti vísað veginn, sýnt þeim fjölbreyttar leiðir til að nota tækin og kennt þeim ábyrga nethegðun. 

Mynd með færslu
 Mynd: Skjáskot
Einn af námshópum Hjálmars.

Á Húsavík nota nemendur eigin síma en í Kópavogi útvegar sveitarfélagið nemendum snjalltæki. Undirbúningur spjaldtölvuvæðingar í grunnskólum Kópavogs hófst haustið 2014 og innleiðingin haustið 2015. Allir nemendur á miðstigi og unglingastigi fá nú spjaldtölvu til afnota. Þeir nota hana í skólanum og taka hana með sér heim. Markmið spjaldtölvuvæðingarinnar er að breyta kennsluháttum. Björn Gunnlaugsson, verkefnastjóri, segir að verkefnið hafi gengið framar vonum. 

„Það er mikil notkun á þessum tækjum og kennarar í sífellt meiri mæli að kveikja á möguleikunum sem þau bjóða upp á til að breyta kennsluháttum, gera kennsluna fjölbreyttari og einstaklingsmiðaðri, auka áherslu á sköpun og samvinnu svo eitthvað sé nefnt."

Stefnt sé að því að spjaldtölvuvæðingin auki ánægju og áhuga nemenda, ekki sé tímabært að segja til um hvort það hafi tekist.

Fíknin verði sýnileg fyrr

Hann segir að ekki hafi komið upp stórvægileg vandamál. Börn í fimmta og sjötta bekk fengu spjaldtölvur til afnota í fyrsta sinn í haust og sumir foreldrar hafi viðrað áhyggjur af því að þau séu of mikið í tölvuleikjum heima við. Björn segir að það sé eðlilegt að barn verði gagntekið af nýju spjaldtölvunni fyrst um sinn. Hann hefur ekki miklar áhyggjur af spjaldtölvufíkn en hún er talin hrjá um eitt af hverjum 20 eða 25 börnum. 

„Fíkn er fyrirbæri sem verður ekki til af því að barni er afhent tæki eða það fær aðgang að einhverjum hlut. Fíkn verður til í persónuleika og það má kannski frekar segja að við séum að gera slík einkenni sýnilegri og þá fyrr og það er þá kannski tilefni til þess að bregðast við."

Það sé ekki hægt að láta þessa áhættu stýra skólaþróunarverkefninu. Þá minnir hann á að fullorðna fólkið hafi haft gríðarlegar áhyggjur af hans kynslóð á sínum tíma vegna vídjóbyltingarinnar, þær áhyggjur hafi reynst ástæðulausar. 

Er það markmið kennarans að ná fullkominni stjórn? 

Björn segir nokkuð um að nemendur noti spjaldtölvurnar til samskipta sem ekki tengist náminu. Í gamla daga hafi miðar verið látnir ganga. Þessi vandamál séu ekki til komin vegna tækninnar. 

„Ef kennari lítur á þetta sem vandamál held ég að hann verði að spyrja sig hvort það sé raunverulegt markmið hans að hann hafi, hverja einustu sekúndu kennslustundarinnar, hundrað prósent stjórn á öllu sem nemendur gera og hugsa."

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV

Sítengingin komin til að vera

Björn segir að sítengingin sé komin til að vera og skólinn sé góður vettvangur fyrir nemendur til að læra inn á hana, setja sér mörk, læra að kíkja á nýju skilaboðin á Facebook og halda svo áfram að vinna, rétt eins og fullorðið fólk gerir oft. Björn segir að það séu góðar síur á netinu inni í skólunum þó uppátækjasamir krakkar geti vissulega komist fram hjá þeim. Þá sé mikill metnaður fyrir því að kenna börnunum að umgangast tækin, efla stafræna borgaravitund. Það hafi vantað upp á að kennarar hafi námsefni og bjargir til að sinna slíku. Bærinn er nú farinn að framleiða slíkt námsefni, svo sem um notkun samfélagsmiðla, myndbirtingar, niðurhal og höfundarrétt. Það megi þó ábyggilega gera betur. 

Á Snapchat í tíma

Selma Gunnarsdóttir og Jón Thoroddsen, kennarar í Laugalækjarskóla í Reykjavík, líta frekar á símann sem truflun en verkfæri. Sumir nemendur hafi enga stjórn á notkuninni. Sökkvi hreinlega ofan í símana. Síminn á að vera á hljóðlausri stillingu ofan í tösku, en nemendur muna ekki alltaf eftir því að taka hljóðið af. Það heyrist píp og titringur og þá missa krakkarnir oft einbeitinguna og freistast til að kíkja á símann.

„Undanfarið hefur þróunin verið þannig hjá okkur að í stað þess að hafa þetta sem tækifæri til að læra er þetta farið að trufla kennslu meira. Krakkarnir missa einbeitinguna. Ég held þetta trufli þau sjálf mest, ekki okkur kennarana." 

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV

„Það eru ákveðnir einstaklingar sem ráða mjög illa við þetta og það eru kannski helst þeir einstaklingar sem þurfa mest á einbeitingu að halda við nám og þetta truflar mjög mikið,"

Segir Selma. Jón segist sjá mikinn mun á nemendum í áttunda og tíunda bekk. 

„Það er eins og það sé meira um þetta í áttunda bekk. Þau eru að taka sig á í níunda bekk en það tekur allan veturinn og svo virðist vera kominn ákveðinn þroski í tíunda bekk."

Selma segir að nemendur hennar séu mikið á Snapchat í kennslustundum, prófi alls konar fíltera með tilheyrandi truflun. Jón segir að þau ræði saman sín á milli í netheimum, mæli sér jafnvel mót frammi á gangi eða inni á klósetti.

„Þau reyna að leyna þessu en svo finnst mér líka, þetta með Snapchat og fleira, að þau séu að taka myndir af öðrum í tíma. Það fer mest fyrir brjóstið á manni sem kennara. Mörgum finnst ekkert að því að vera að taka myndir af öðrum. Þannig að það fer óþarflega mikill hluti kennslunnar í að segja þeim að ganga frá símunum og nota þá af skynsemi."

Selma segist hafa gaman af því að nýta snjallsímana í alls kyns kennslu, hún geri það allavega vikulega og hugsanlega gæti hún gert meira af því. Raunin hafi þó verið sú að tækin trufli meira en þau hjálpi. 

Skólakrít við skólatöflu ásamt svampi til að þrífa krít.
 Mynd: kmb43xgame - Freeimages
Liðin tíð?

Tala ekki mikið saman 

Snjallsímar hafa breytt samskiptamynstri nemenda. Það eru allir sammála um. Björn segir grunnskólanemendur í Kópavogi nota spjaldtölvurnar heilmikið í frítíma sínum. Hann sjái það ekki sem vandamál. 

„Bæði í frímínútum, fyrir skóla og eftir skóla og heima hjá sér eru þau að leika sér í spjaldtölvum eða að eiga í samskiptum í gegnum spjaldtölvurnar en ég sé það ekki sem vandamál hjá þorra þeirra."

Nokkrir grunnskólar hafa staðið fyrir símalausum frímínútum eða símalausum vikum, jafnvel að frumkvæði nemenda. Þetta hefur verið gert í Grunnskóla Vestmanneyja. Í tilkynningu frá skólanum sagði að kliður hefði verið um allan skólann í frímínútum og meiri einbeiting í kennslustundum. Þetta var líka gert í Síðuskóla á Akureyri að frumkvæði nemenda, skólinn bauð þá upp á annars konar afþreyingu í frímínútum og lögð var áhersla á tækjalaus samskipti. Þeir sem vildu nota snjalltækin gátu gert það í einni stofunni. Björn segist ekki skilja þessa tilhneigingu til að halda að það sé gott að útiloka veruleikann frá skólastarfinu og hverfa aftur til þess sem maður þekkti sjálfur í æsku. 

„Var það til umræðu þegar það kom rennandi vatn í skóla, þegar þeir fengu síma og rafmagn. Var það til umræðu að það þyrfti að hvíla sig á þessum hlutum?"

Hjálmar telur aftur á móti gott að taka símalausa daga inn á milli, kúpla sig út úr sítengingunni og rifja upp hvernig samskiptin voru fyrir tíma snjallsímabyltingarinnar. Um daginn var þráðlausa netið tekið af Borgarhólsskóla á Húsavík. Þá gátu nemendur ekki verið á Snapchat í frímínútum nema þeir ættu inneign og kennarar tóku eftir því að samskiptin á milli þeirra jukust.

„Eins og það sé búið að deyfa þau"

Selma og Jón segja frímínútnagæslu í Laugalækjarskóla aldrei hafa verið auðveldari. 

„Þau sitja mörg hver hvert í sínu horni með símann, eru bara að skoða eitthvað. Það eru lítil samskipti. Allavega búin að minnka hratt á síðustu árum bara,"

Segir Selma. Jón tekur undir:

„Við erum sjálf í frímínútnagæslu, kennararnir, og manni finnst oft eins og það sé búið að gefa börnunum eitthvað róandi. Búið að deyfa þau. Þau eru bara hvert í sínu horni. Manni finnst þau vera að fara á mis við eitthvað líka þó það sé ofsa auðvelt fyrir okkur að vera á vaktinni með þau svona. Enginn hávaði, ekkert. En þetta er ekki alveg það líf sem mér finnst að ætti að vera í þessu unga fólki."

Þá nefnir Selma að snjallsímanotkun hafi verið tengd kvíða og þunglyndi, einkum hjá ungum stúlkum. 

Sítengingin komin til að vera

En hvað ber framtíðin í skauti sér? Á að setja samræmda stefnu? Jón segir að best sé að kennarar fái að meta það, hver fyrir sig, hvernig þeir telja best að haga kennslunni.

„Ef kennarinn treystir sér til að vera með þetta og gera þetta vel er það allt í lagi. Ef kennarar eru með aðrar áherslur og hafa hæfileika í aðrar áttir þá styrkist skólastarfið af þessum ólíku hæfileikum þeirra. Ekki að það séu allir, allur skólinn í einhliða ferð. Ég held að það sé ekki styrkur."

Þeirra framtíð, ekki okkar fortíð

Björn segir að kennurum beri skylda til þess að undirbúa grunnskólabörn fyrir þeirra framtíð, ekki eigin fortíð. Skólar verði að taka þátt í þessu verkefni og gera snjalltæki miðlæg í skólastarfi. Nám verði að vera í samhengi við daglegt líf barna og tilraunir skóla til að aðskilja hinn sítengda veruleika frá skólastarfinu séu ekki í þágu barnanna. Innan skamms verði allir grunnskólar á landinu farnir að nýta þessa tækni.

Ekki samræmdar reglur

 Í lok síðasta árs hvöttu Mennta- og menningarmálaráðherra og umborðsmaður banra alla grunnskóla til að setja skýrar reglur um notkun snjalltækja í skólastarfi og skýr viðurlög við brotum á þeim í samræmi við Barnasáttmálann og það regluverk og markmið sem skólar vinna eftir hér á landi. Í almennum viðmiðum um skólareglur frá árinu 2015 er kveðið á um að sett skuli ákvæði um notkun á rafeindatækjum og um mynd- og hljóðupptökur og birtingu þeirra.

Nær allir unglingar í dag eiga snjallsíma og fara með hann í skólann. Skólareglur eiga samkvæmt almennum viðmiðum um skólareglur að taka til snjallsímanotkunar. Þær eru þó mismunandi eftir skólum. Kennarar geta ekki tekið síma og önnur snjalltæki af nemendum gegn vilja þeirra. Þetta er álit Umboðsmanns barna. Hann bendir á að börn njóti eignaréttar og friðhelgi einkalífs. Í sumum skólum er gerð krafa um að nemendur hafi símana ofan í tösku. Í öðrum hafa kennarar fyrir sið að safna snjallsímum nemenda saman í upphafi kennslustundar eða gera síma upptæka þegar símareglur eru brotnar. Til að geta það þurfa þeir að hafa gert samning við nemendurna, þeir þurfa að hafa veitt formlegt samþykki.

Nemandi eða snjalltæki sent heim

Ef nemendur neita að fylgja símareglum kveða reglur skóla stundum á um að nemanda sé vísað úr tíma eða hann sendur heim, stundum er forráðamaður nemanda beðinn um að sækja snjalltækið og stundum eru atvikin einfaldlega skráð og haldinn fundur með foreldrum verði þau mörg.

Reyndu allsherjarbann

Þá eru dæmi um að skólar hafi gert tilraunir með að banna snjallsíma innan veggja skólans tímabundið. Þetta var gert í Oddeyrarskóla á Akureyri í fyrra. Rannveig Sigurðardóttir, deildarstjóri í skólanum, segir að þessar tvær vikur hafi gengið vel en staðreyndin sé þó sú að þessi tækni sé komin til að vera. Það þurfi einfaldlega að læra að umgangast hana af skynsemi. Þetta verði þó endurskoðað ef það koma upp stór vandamál tengd snjallsímanotkun.  

Íhuga netbann og hóprefsingar

Í Laugalækjarskóla eru brot á símareglum skráð og foreldrar beðnir að geyma síma heima ef brot eru ítrekuð. Skólinn vill ekki bera ábyrgð á þessum tækjum. Það er frítt þráðlaust net í skólanum og nú stendur til að fá einstaklingsaðgang að netinu fyrir hvern nemanda og refsa nemendum sem ekki virða símareglur með því að loka á netaðgang þeirra. Þá kemur líka til greina að refsa heildinni ef mikið er um brot. 

„Það var önnur hugmynd að taka heildarsummu af tækjanotkun og það myndi fara á allan hópinn. Við erum ekki hlynnt því að nota hóprefsingu en þegar þetta er orðið mikið vandamál eins og í einstaka árgöngum hér höfum við hugleitt að fara þá leið," segir Selma.