Athugið þessi frétt er meira en 9 ára gömul.

Trúfélög mega heimsækja börnin

11.06.2012 - 10:35
Mynd með færslu
 Mynd:
Trúfélög og lífsskoðunarfélög mega heimsækja skóla í Hafnarfirði, ræða við börnin og dreifa efni sínu til skólabarna. Fræðsluráð Hafnarfjarðar hefur samþykkt reglur sem víkka út heimildir þessara félaga.

Nýju reglurnar voru samþykktar á fundi fræðsluráðs Hafnarfjarðar í morgun. Í nýju reglunum segir að trúar- og lífsskoðunarfélög megi ekki stunda starfsemi sína innan veggja leik- og grunnskóla á skólatíma. Þetta á við allar heimsóknir í lífsskoðunar- og trúarlegum tilgangi og dreifingu á boðandi efni, hluti sem gefnir eru við trúboð, til dæmis tákngripi, fjölfölduð trúar- og lífsskoðunarrit og bækur. 

 

Geta heimsótt skólana

Í reglunum segir einnig að skólastjórnendur grunnskóla geti boðið fulltrúum trúar- eða lífsskoðunarfélaga að heimsækja kennslustundir í trúarbragðafræði og lífsleikni sem þátt í fræðslu um trú og lífsskoðanir samkvæmt gildandi aðalnámsskrá og námsefni. Heimsóknin fari þá fram undir handleiðslu kennara. Þá mega börnin fara í heimsóknir á helgi- og samkomustaði á skólatíma og undir handleiðslu kennara. 

Sígildir söngvar, dansar, leikir og handíðir halda sessi sínu í skólanum sem og heimsóknir í trúar- og lífsskoðunarfélög. 

 

Víkka út aðgengi

Sigurlaug Anna Jóhannsdóttir, fulltrúi Sjálfstæðisflokksins í fræðsluráði, segir að í Reykjavík í fyrrahaust hafi verið samþykktar umdeildar reglur sem takmarka aðgengi trúarfélaga í skólum en í Hafnarfirði sé verið að víkka út þetta aðgengi og gefa öllum trúfélögum jafna möguleika á að dreifa efni sínu. Reglurnar opni og staðfesti það fyrirkomulag sem þegar sé í gildi í skólunum.

Sigurlaug segir að hún hafi komið að mótun reglnanna og viti að með þeim sé verið að opna fyrir aðgang trúfélaga og lífsskoðunarfélaga að skólabörnum.