Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Trúfélög andmæla frumvarpi um þungunarrof

20.01.2019 - 10:29
Mynd með færslu
 Mynd:
Öll þau trúfélög sem hafa skilað inn umsögn um frumvarp um þungunarrof leggjast gegn því. Samkvæmt frumvarpinu geta konur farið í þungunarrof fram að lokum 22. viku meðgöngu og þurfa ekki samþykki fyrir því. Kona sem fæddist með klofinn hrygg mótmælir því að klofnum hrygg sé lýst sem röksemd fyrir samþykkt frumvarpsins og segir það lýsa fordómum. Tvær fræðakonur fagna frumvarpinu og segja það mikilvægt framfaraskref.

„Flest ef ekki öll trúarbrögð miða við að líf manneskjunnar hefjist við getnað enda hefst þar vöxtur hennar og þroski. Fóstur er einfaldlega lifandi og þungunarrof felur í sér að það er deytt,“ segir Andlegt þjóðarráð bahá'ía á Íslandi í umsögn sinni. Þjóðarráðið segir að réttlætanlegt geti verið að grípa inn í meðgöngu í alvarlegum tilfellum, svo sem ef lífi móður er hætta búin, eitthvað mikið að fóstrinu eða ef móðurinni hefur verið nauðgað. Ráðið harmar „það lífsviðhorf sem liggur að baki þeirri skýru og einbeittu stefnumörkun að fóstureyðing sé ekki aðeins valfrjáls og örugg í brýnum tilvikum heldur almennt sjálfsögð og jafnvel léttvæg“.

Hvítasunnukirkjan vill að allt verði gert til að hlúa að ófæddum börnum og verja rétt þeirra til lífs, til þess sé besta leiðin sú að hlúa að foreldrum og skapa barnvænt þjóðfélag þar sem allt líf hafi jafnt vægi. Hvítasunnukirkjan leggur í umsögn sinni áherslu á að konur sem íhuga að binda enda á meðgöngu eigi kost á samtali áður en þær taka ákvörðun. „Að tryggja aðkomu fagaðila að undirbúningsferli slíkrar aðgerðar ætti ekki að vera álitið rof á mannvirðingu, mun frekar ætti að líta á það sem skref til þess að tryggja bestu mögulegu alhliða heilbrigðisþjónustu. 

„Hjálpræðisherinn trúir því að lífið sé gjöf frá Guði og að við séum ábyrg gagnvart Guði þegar við tökum líf. Vegna þessa, hefur Hjálpræðisherinn áhyggjur af fyrirframgefnu samþykki varðandi fóstureyðingar,“ segir í umsögn Hjálpræðishersins. Þar er sagt að „hræðilegar og flóknar kringumstæður“ krefjist erfiðra ákvarðana þegar kemur að meðgöngu. Ákvarðanir um slíkt ætti þó að taka eftir bæn og mikla umhugsun. Hjálpræðisherinn segir að aðeins ætti að binda enda á þungun ef hún ógnar lífi móðurinnar eða sýnt sé fram á að lífslíkur við fæðingu séu mjög litlar. Þá verði að meta hvert mál ef konur hafa orðið fyrir nauðgun eða sifjaspelli.

Áður höfðu Kaþólska kirkjan á Íslandi og Samfélag trúaðra lagst gegn frumvarpinu en Alþýðusamband Íslandslýst stuðningi við það.

Lýsir og ýtir undir fordóma

María Jónsdóttir, þroskaþjálfi og fötlunarfræðingur sem fæddist með klofinn hrygg, andmælir því að greining á klofnum hrygg hafi verið notuð sem röksemd fyrir því að lengja tímaviðmiðin þar sem heimilt er að binda enda á þungum. Þetta hafi yfirlæknir fæðingarþjónustu til dæmis tvisvar nefnt í fréttum. „Þetta lýsir að mínu mati fordómum og ýtir undir fordóma hjá öðrum gagnvart fólki með þessa fötlun,“ segir hún. „Fyrir mér, og mörgum öðrum með sömu fötlun, þá er klofinn hryggur ekki ástæða til þess að bjóða fóstureyðingu.“

Framfaraskref

Silja Bára Ómarsdóttir alþjóðastjórnmálafræðingur og Steinunn Rögnvaldsdóttir kynjafræðingur fagna frumvarpinu í sameiginlegri umsögn. „Þar er um mikið framfaraskref að ræða enda eru það grundvallarmannréttindi að ráða yfir líkama sínum og ákveða hvort og hvenær fólk ráðist í barneignir.“ Þær fagna því líka að orðinu fóstureyðing er skipt út fyrir þungunarrof. Silja Bára og Steinunn segja mikilvæga réttarbót fólgna í því að stúlka sem er ólögráða vegna aldurs geti látið binda enda á meðgöngu án þess að upplýsa foreldri eða forsjáraðila.

Silja Bára og Steinunn segja að núverandi lög hafi ekki verið sett með sjálfsákvörðunarrétt kvenna í huga. Rauðsokkuhreyfingin hafi skrifað frumvarp um sjálfsákvörðunarrétt kvenna en það verið lagt til hliðar og nefnd skipuð þremur körlum hafi verið fengin til að vinna nýtt frumvarp. Lögin heimili konum ekki að taka sjálfar ákvarðanir um eigin líf og líkama. „Engu að síður þróaðist framkvæmd þeirra fljótlega í þá átt að túlka þau konum í vil.“