Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Trúarbrögð og heimspeki Jedi-riddaranna

Mynd: Lucasfilm / Youtube

Trúarbrögð og heimspeki Jedi-riddaranna

14.12.2017 - 18:00

Höfundar

Nýjasta Stjörnustríðsmyndin, Star Wars: The Last Jedi, er komin í bíó. Að gefnu tilefni rifjaði Lestin upp trúarbrögð og heimspeki Jedi-riddaranna, Jedi-ismann.

Það er fátt sem jafnast á við lifnaðarhætti og mátt Jedanna. Fátt flottara en að sjá góðhjartaða Jedi-riddara berjast gegn illum öflum með yfirvegun, hugarorku og trú á ljósið, fremur en myrkrið. Fátt sem jafnast á við spakmælin sem vella úr munni þessara ljósklæddu hetja. Spakmæli á borð við: „Jedi-riddari notar Máttinn til varnar og þekkingarleitar, en ekki til atlögu“, „Óttinn leiðir þig að myrku hliðinni. Ótti veldur reiði, reiði býr til hatur, hatur veldur þjáningu“, „Gerðu það sem þér finnst rétt - fylgdu sannfæringu þinni“, „Hugur barnsins er sannarlega undursamlegur.“ 

Lestin lagði leið sína í Nexus og spjallaði við Gísla Einarsson, framkvæmdarstjóra verslunarinnar. „Jedi-ismi er ákveðin hugmynd um að taka þessar hugmyndir um hvað liggur á bak við Jedi-ana í Star Wars myndunum og búa til úr því einhvers konar heimspeki, jafnvel einhvers konar lífsspeki strúktúr. Þetta hefur verið gert bæði í Bandaríkjunum og Bretlandi,“ sagði Gísli um Jedi-ismann.

Mynd með færslu
 Mynd: Justin Sullivan
Fjöldinn allur af fólki aðhyllist Jedi-trúna.

Í Stjörnustríðsmyndunum eru Jedi-riddararnir tengdir orku alheimsins. Þeir ná að komast inn í hana, og beita Mættinum í baráttunni við hið illa. „Mátturinn og Jedi-trúin er ekki útskýrð neitt rosalega mikið í myndunum. Þetta er haft frekar óljóst viljandi en þetta er sett svolítið upp eins og trúarregla þar sem þeir vernda þessa þekkingu og þessa hæfileika, og svo eru þeir að skipta sér að alheimspólitíkinni í leiðinni,“ segir Gísli um það hvernig Jedi-isminn birtist í Stjörnustríðsmyndunum. 

Fjöldi fólks skilgreinir trú sína sem Jedi-isma

Trúarbrögð Jedi-riddaranna hafa fært út kvíarnar, út fyrir bíótjaldið og inn á heimili fólks enda fjöldinn allur af fólki víðs vegar um heiminn sem aðhyllist trúna. Jedi-ismi sem trúarbrögð meðal manna hófst sem eins konar grín um síðustu aldamót. En árið 2001 gekk um vefinn alþjóðleg herferð sem hvatti fólk til þess að skilgreina trú sína sem Jedi-isma í skoðanakönnunum. 0,7% bresku þjóðarinnar eða rúmlega 390.000 manns skilgreindu sig sem Jedi trúar, í Ástralíu um það bil 70.000 manns, eða 0,37% þjóðarinnar. Á Nýja-Sjálandi voru það 53.000 manns eða 1,5% og í Kanada rúmlega 21.000 manns. Fyrir rúmum sex árum voru trúarbrögð einnig könnuð í löndum Austur-Evrópu en þar voru tölurnar eitthvað á þessa lund: 303 Króatar sem skráðu sig Jedi trúa, 640 Serbar og 15.070 Tékkar.

Mynd með færslu
 Mynd: Lucasfilm - Youtube
Mark Hamill í hlutverki Loga Geimgengils, en Logi er einn þekktasti jedi sögunnar.

Óvíst er hve stór hluti svaranna var og er grín en Beth Singler, rannsakandi við Cambridge-háskóla sagði í viðtali við BBC fyrir nokkrum árum að í Bretlandi væru allavega 2000 manns sem aðhylltust Jediisma af alvöru, og sé það álíka margt fólk og aðhyllist Vísindakirkjuna. Á síðasta ári var Jedi-istum í Bretlandi þó neitað um opinbera skráningu sem trúfélag, á grunni ósannfærandi raka og Jedi-trúin ekki talin nægilega afmörkuð. Í Texas í Bandaríkjun er staða mála þó önnur. ,,The Temple of the Jedi Order‘‘ eða Musteri Jedi-trúarinnar var þar opinberlega skráð sem trúfélag árið 2007, fékk þó ekki undanþágu frá skatti, eins og önnur trúarfélög, fyrr en nú fyrir tveimur árum.

Samsuða ýmis konar hugmynda og aðferða 

Mikið hefur verið skrifað um Jedi-trúna, Máttinn og kenningar Jedi-riddaranna. Trúin virðist vera eins konar blanda af hugmyndum og heimspeki búddisma, taóisma, kristni, sem og aðferðum núvitundar, hugleiðslu og annars konar hugmyndum sem vísindamenn og sálfræðingar samtímans leggja áherslu á að nútímamaðurinn leggi rækt við; Líkamleg hreysti, öndunaræfingar, mínímalískur lífstíll, þolinmæði og fleira. 

Jedi gerir sér grein fyrir því að innra með okkur er bæði myrk hlið, sem og ljós hlið. Hán kýs bara ekki að dvelja við þá myrku. Jedi trúir á Máttinn, og eins og Gísli segir í viðtalinu, þá er Mátturinn sú orka sem bindur allt og alla. Jedi finnur fyrir Mættinum, lifir í núinu, hlustar á innsæið og fylgir eigin sannfæringu. Jedi hugleiðir til þess að öðlast hugarró, hán er meðvitað, hán er vakandi. Jedi er þolinmótt, Jedi verndar þá sem minna mega sín. Jedi forðast það að láta tilfinningar myrku hliðarinnar stjórna sér; tilfinningar á borð við ótta, reiði, frekju, árásargirni og hatur. Jedi heldur sér í líkamlegu formi, Jedi trúir á örlögin, Jedi trúir á að sleppa tökum af nytjavörum, Jedi trúir á kærleikann, trúir á frið og réttlæti. Jedi er hógvært og trúir á sjálfsþroska, Jedi-riddararnir trúa á lýðræði en treysta sjaldnast stjórnmálamönnum, Jedi trúir á jafnvægi alls. Að lokum tekur Jedi sig ekki of alvarlega og skilur mikilvægi hláturs og bross.

Fílósófía Jeda hljómar kannski bara eins og ágætis lækningarsamsuða fyrir nútímafólk í sínu ofhitnunarsamfélagi þar sem Donald Trump, og fleiri, leika sér að því að breiða út og boða boðskap og tilfinningar myrku hliðarinnar.

Lestin á Rás 1 fjallaði um Jedi-isma í þætti dagsins. Rætt var við Gísla Einarsson, framkvæmdarstjóra Nexus. Hlusta má á hljóðbrotið í heild hér að ofan.