Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Tröll náðu til helmings bandarískra kjósenda

Mynd með færslu
 Mynd: AP
Fréttum og greinum nettrölla tengdum rússneskum stjórnvöldum var deilt meðal allt að 126 milljóna bandarískra Facebook notenda í aðdraganda bandarísku forsetakosninganna í fyrra. Þetta kemur fram í vitnisburði Facebook sem lagður verður fyrir dómsmálanefnd Bandaríkjaþings á morgun.

120 falsaðir aðgangar tengdir Rússum bjuggu til 80 þúsund færslur sem náðu beint til um 29 milljóna Bandaríkjamanna. Færslurnar náðu svo enn frekari dreifingu þegar notendur deildu þeim til sinna vina. Færslurnar eru sagðar tengjast rússnesku nettröllabandalagi með beina tengingu við rússnesk stjórnvöld. Bandalagið nefnist Netrannsóknastofnun, eða Internet Research Agency. Erlendir fjölmiðlar hafa þetta eftir heimildamanni tengdum Facebook, en samkvæmt Guardian vill hann ekki láta nafn síns getið.

Auk Facebook mæta einnig lögfræðingar Google og Twitter fyrir dómsmálanefndina á morgun. AP fréttastofan greinir frá því að Twitter færi nefndinni þær upplýsingar að lokað hafi verið fyrir tæplega 2.800 reikninga tengdum hinni rússnesku Netrannsóknastofnun. Það eru 14 sinnum fleiri reikningar en Twitter færði þingnefndum fyrir þremur vikum, samkvæmt heimildum AP. Twitter reikningar tengdir rússneskum stjórnvöldum skrifuðu 1,4 milljónir færsla á Twitter frá september til 15. nóvember í fyrra, nærri helmingur þeirra var sjálfvirk. Þá fundust níu rússneskir reikningar sem keyptu auglýsingar, flestir þeirra frá fréttastofunni Russia Today, sem studd er af rússneskum stjórnvöldum. Twitter hætti einmitt auglýsingasölu til Russia Today og ríkisfréttastofunnar Sputnik í síðustu viku.

Fréttastofan Reuters segir Google hafa fundið í reikningum sínum að fyrirtækið hafi haft 4.700 dala auglýsingatekjur frá félögum tengdum Rússum í aðdraganda bandarísku forsetakosninganna í fyrra. 

Facebook ætlar að fá staðfestingu á því hverjir kaupa auglýsingar og gera síðuna gegnsærri þannig að augljóst sé hvaðan auglýsingarnar koma. Twitter ætlar einnig að fá staðfestingu á því hverjir kaupa auglýsingar fyrir frambjóðendur í komandi kosningum áður en þær verða birtar. Google stefnir að því að koma upp gagnasafni yfir kosningaauglýsingar og birta skýrslur yfir þá sem kaupa slíkar auglýsingar.

Fyrr í dag bárust fréttir af því að Paul Manafort, fyrrum kosningastjóri Donalds Trumps Bandaríkjaforseta, og Rick Gates viðskiptafélagi hans hefðu verið úrskurðaðir í stofufangelsi. Þeir eru fyrstu mennirnir sem eru ákærðir á grundvelli rannsóknar Roberts Muellers á meintum afskiptum rússneskra stjórnvalda af forsetakosningunum í fyrra. Þá viðurkenndi George Papadopolous, ráðgjafi Trumps í utanríkismálum í kosningabaráttuni, að hafa sagt ósatt við yfirheyrslur hjá alríkislögreglunni FBI. Hann játaði að hafa reynt að koma á samskiptum milli stjórnenda kosningabaráttunnar og fulltrúa rússneskra stjórnvalda, en af því hafi ekki orðið.