Athugið þessi frétt er meira en 10 ára gömul.

Treystir forstjóra Útlendingastofnunar

21.01.2013 - 17:55
Mynd með færslu
 Mynd:
Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra segist bera traust til Kristínar Völundardóttur, forstjóra Útlendingastofnunar, þrátt fyrir umdeild ummæli hennar.

Kristín sagði að fólk sem ekki væri flóttamenn teldi fýsilegt að sækja um hæli hér á landi þar sem málsmeðferð tæki langan tíma. Á meðan fengi það frítt fæði og húsnæði. Ögmundur fundaði með Kristínu vegna ummælanna í dag og kynnti fyrir henni áform sín um að taka allt ferlið til endurskoðunar.

Ögmundur segir að það hafi verið ágætur fundur. „Við ræddum ummæli sem látin voru falla í síðustu viku, ég heyrði skýringar forstjóra Útlendingastofnunar og forstjórinn hlustaði á mínar athugasemdir. Við áttum ágætan fund og ég greindi henni frá þeirri ákvörðun minni að taka alla málsmeðferð sem lýtur að hælisleitendum til skoðunar, allt frá því fólk kemur til landsins og þar til niðurstaða fæst í þeirra málum,“ segir Ögmundur.