Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Treystir ekki Sjálfstæðisflokknum

Mynd: Skjáskot / RÚV
Rósa Björk Brynjólfsdóttir, annar þeirra þingmanna Vinstri grænna sem greiddi atkvæði gegn því að fara í formlegar stjórnarmyndunarviðræður við Sjálfstæðisflokk og Framsóknarflokk, segist hafa gert það vegna vantrausts í garð Sjálfstæðisflokksins. „Meðal annars í ljósi þeirra mála sem við erum að kjósa út af – ég held að það verði afskaplega erfitt fyrir okkur í VG sem femíniskum flokki að efla traust þegar kemur að jafnréttismálum og afgreiðslu þeirra ef við förum í þetta samstarf.“

Rósa segist í gærkvöldi hafa óskað eftir atkvæðagreiðslu um það hvort fara skyldi í formlegar viðræður við flokkana tvo. Atkvæðagreiðslan fór svo fram á fundinum nú eftir hádegi og þar greiddu tveir þingmenn af ellefu atkvæði gegn viðræðunum: Rósa og Andrés Ingi Jónsson.

„Mín afstaða byggist ekki á neinu vantrausti í garð Katrínar eða okkar forystu eða annarra í Vinstri grænum,“ segir Rósa. Vantraustið sé í garð Sjálfstæðisflokksins vegna ýmissa mála sem hafi umleikið flokkinn. „Það skortir á þá sannfæringu mína að siðferðismálin hafi verið tekin þar traustum tökum,“ segir hún.

Hún tekur fram að með þessu sé hún ekki að lýsa því yfir að hún muni ekki styðja hugsanlega ríkisstjórn sem gæti komið út úr viðræðunum. Hún segir að það yrði sjálfstæð ákvörðun sem tæki mið af málefnasamningnum.

„Ég uni þessari niðurstöðu meirihlutans en hefði kosið annað. Það var ekki mitt fyrsta val að fara í þessar viðræður,“ segir Rósa Björk Brynjólfsdóttir, þingmaður Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs.

 

stigurh's picture
Stígur Helgason
Fréttastofa RÚV