Treysta illa stóriðju af fenginni reynslu

31.07.2016 - 11:55
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Íbúar í nágrenni við Grundartanga segja að réttast væri að ný sólarkísilverksmiðja Silicor Materials á svæðinu fari í fullt umhverfismat áður en framkvæmdir hefjast. Þeim hugnist illa að vera tilraunaverkefni, en framleiðsluaðferðin hefur ekki verið notuð áður hérlendis.

Til stendur að reisa sólarkísilverksmiðju á Grundartanga. Verksmiðjan verður á um 240 þúsund fermetra svæði. Starfsemin er tilkynningarskyld samkvæmt lögum en Skipulagsstofnun komst að þeirri niðurstöðu að framkvæmdin skyldi ekki háð umhverfismati.

Þessu mótmæla íbúar í nágrenninu og hafa stefnt forstjóra fyrirtækisins. Þeir fara fram á að ákvörðun Skipulagsstofnunar verði hnekkt og framkvæmdin gangist undir umhverfismat. Þórarinn Jónsson bóndi og oddviti Kjósarhrepps segir að best væri fyrir alla hlutaðeigandi að kanna málið til hlítar áður en framkvæmdir hefjast.

„Okkur lýst svona einhvern veginn ekki á að vera hálfgert tilraunaverkefni, þetta er verksmiðja sem þekkist ekki á heimsvísu, eitthvað nýtt fyrirbæri. Það veit svo sem enginn hvað verður. Þeir eru búnir að tala um að þetta verði algerlega mengunarlaus verksmiðja en við erum ekki alveg að treysta stóriðjuverum af fenginni reynslu. Okkur finnst líka bara eðlilegt að svona stórt verkefni eins og þessi verksmiðja á að vera eigi bara að fara í umhverfismat, það er bara best fyrir alla aðila. Þetta er klárlega málmbræðsla og málmbræðslur eiga bara að fara í umhverfismat, punktur.“ 

Þórarinn bendir á að Silicor Materials hafi haldið því fram að engin flúormengun verði af verksmiðjunni, en þegar nýtt deiliskipulag kvað á um að ekki mætti auka við flúormengun á svæðinu hafi fyrirtækið gert athugasemd við það.

„Fyrst segja þeir okkur að þetta sé alveg mengunarlaust en svo koma þeir sjálfir með einhverjar áhyggjur af því að þeir mega ekki sleppa neinu út af því þeir gætu mögulega þurft þess.“

Þórarinn segir réttast að umhverfið fái að njóta vafans. 

„Við þekkjum þetta svo sem hérna með stóriðjuna og öll þessi fögru fyrirheit. Svo eru hlutirnir bara öðruvísi en lagt er upp með í upphafi og þá sitja bara íbúar og nágrannar uppi með skaðann af því. Ef það er möguleiki að kanna til hlítar áhrifin þá á náttúrulega klárlega að gera það, bara láta íbúa og umhverfið njóta vafans.“ 

alma's picture
Alma Ómarsdóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi