Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Traust til flestra fjölmiðla dregst saman

01.12.2014 - 12:25
Mynd með færslu
 Mynd:
Traust á öllum frétta miðlum hefur minnkað nema DV samkvæmt mælingu MMR. Fréttastofa RÚV nýtur sem fyrr mests trausts.

Af þeim fréttamiðlum sem könnunin tók til báru svarendur mest traust til fréttamiðla RÚV. 70,6% af þeim sem afstöðu tóku bera mikið traust til Fréttastofu RÚV og 64 og hálft prósent til rúv.is. Traustið hefur minnkað um sex prósentustig frá síðustu könnun fyrir ári.

Traust hefur einnig minnkað á öðrum fréttamiðlum. Netmiðillinn mbl.is nýtur trausts tæplega 47 prósenta, en var rúmlega 50 prósent fyrir ári.

Tæp 34 prósent treysta vísi.is og 27 prósent treysta Kjarnanum.is.

Þeir prentmiðlar sem nutu mests trausts meðal almennings voru Morgunblaðið og Fréttablaðið. Af þeim sem tóku afstöðu sögðust 40,6% bera mikið traust til Morgunblaðsins nú, borið saman við 46,4% fyrir ári og tæp 35 prósent sögðust bera mikið traust til Fréttablaðsins nú, borið saman við rúmlega 39 % í fyrra.

Traust til fréttamiðla DV hefur aukist frá því fyrir ári. Af þeim sem tóku afstöðu nú sögðust 14 og hálft prósent bera mikið traust til DV, borið saman við 10% í fyrra. Þá sögðust  rúm 13 % bera mikið traust til dv.is nú, borið saman við rúm 9 % fyrir ári.