Athugið þessi frétt er meira en 8 ára gömul.

Traust á embætti forseta Íslands dalar

06.03.2014 - 18:21
Mynd með færslu
 Mynd:
Traust á Alþingi og embætti sérstaks saksóknara hefur aukist nokkuð frá því í fyrra. Traust á embætti forseta Íslands hefur á sama tíma dalað talsvert. Þetta kemur fram í þjóðarpúlsi Gallup um traust á stofnunum.

Þjóðarpúlsinn var tekinn með netkönnun dagana 12. til 23. febrúar. Alþingi og sérstakur saksóknari hækka mest frá síðustu mælingu, um níu prósentustig. Traust á Alþingi mælist nú 24 prósent en 57 prósent þjóðarinnar treysta sérstökum saksóknara. Traust á embætti forseta Íslands hefur minnkað mest eða um tólf prósentustig frá fyrra ári og mælist nú 47 prósent.

Spurt var um sautján stofnanir. Flestir treysta Landhelgisgæslunni eða 89 prósent. Næst á eftir kemur lögreglan sem 83 prósent þjóðarinnar segjast treysta og Háskóli Íslands sem 73 prósent treysta. Heilbrigðiskerfið nýtur trausts 64 prósenta og hefur það lækkað um fjögur prósentustig á milli ára.
Íslendingar bera minnst traust til bankakerfisins og næstminnst til fjármálaeftirlitsins. Bankakerfið nýtur trausts fjórtán prósent svarenda en hefur þó aukið traust sitt um fjögur prósentustig á milli ára. 14 hundruð voru í úrtakinu og var svarhlutfall tæp 59 prósent.