Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Tónlistarskólar kvarta til umboðsmanns

Mynd með færslu
 Mynd: Landinn - RÚV

Tónlistarskólar kvarta til umboðsmanns

27.09.2016 - 14:29

Höfundar

Tónlistarskóli Kópavogs og Tónskóli Sigursveins D. Kristinssonar (TK/TSDK) hafa lagt fram kvörtun til Umboðsmanns Alþingis vegna afgreiðslu mennta- og menningamálaráðuneytisins á því að finna rekstraraðila að nýjum listframhaldsskóla. Skólarnir telja að ráðuneytið hafi brotið gegn mörgum grundvallarreglum stjórnsýslulaga við afgreiðslu málsins.

Ráðuneytið auglýsti eftir aðilum til að reka skólann í vor. Tvær umsóknir bárust en auk fyrrnefndu tveggja skólanna sóttu Tónlistarskólinn í Reykjavík og Tónlistarskóli FÍH (TR/FÍH) um. Þeim síðarnefndu var svo falið að reka skólann eftir að sérstök matsnefnd sem menntamálaráðherra skipaði hafði farið yfir málið. Fjórir af fimm matsmönnum töldu tónlistarskólana í Reykjavík og FÍH væri lítillega betri en einn þeirra gaf TK/TSDK hærri einkunn. Samanlögð einkunn TR/FÍH var betri og ákvað menntamálaráðherra að ganga til samninga við þá.

Í frétt á vef Tónlistarskóla Kópavogs kemur fram að umsókn þeirra og Tónskóla Sigursveins hafi verið mjög metnaðarfull og mun ítarlegri en krafa var gerð um. Þá sé ljóst að tillaga þeirra hefði verið mun hagkvæmari, svo nemi tugum milljóna á ári.

Fram kemur einnig að við afgreiðslu mennta- og menningarmálaráðuneytisins á tillögunum hafi verið að mati TK/TSDK brotið gegn mörgum grundvallarreglum stjórnsýslulaga. Beiðnum skólanna um að fá aðgang að gögnum málsins hafi verið mætt með þögninni einni, að því frátöldu að skólarnir fengu eftir mikinn eftirgang afrit af greinargerð matsnefndarinnar. Með því hafi andmælaréttur TK/TSDK verið virtur að vettugi við meðferð málsins. Þá hafi ráðherra ekki látið skólunum í té rökstuðning fyrir ákvörðun sinni, þrátt fyrir lagaskyldu þar um. Skólarnir gera einnig athugasemdir við skipan matsnefndarinnar.

TK/TSDK telja að ráðherra hafi ekki valið betri tillöguna. Ekki hafi verið sýnt fram á að tillaga TR/FÍH feli í sér faglega betri niðurstöðu. Var gerð grein fyrir þessu í bréfi skólanna til ráðuneytisins 12. ágúst 2016

Vegna málsmeðferðar ráðuneytisins og efnislegrar niðurstöðu hafa TK/TSDK nú lagt fram kvörtun til umboðsmanns Alþingis.