Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Tónlist fyrir tunglið

Mynd: Freyr Arnarson / RÚV

Tónlist fyrir tunglið

28.04.2019 - 16:53

Höfundar

Árið er 1969. Það er mikið rigningarsumar á Íslandi. Þú horfir á skjáinn eða hlustar á útvarpið. Í loftinu er bein útsending frá einum stærsta viðburði aldarinnar. Í dag lendir maðurinn á tunglinu.

Tómas Ævar Ólafsson skrifar:

Á skjánum sjást svipmyndir af jarðarupprás á tunglinu. Geimfararnir Neil Armstrong og Buzz Aldrin hoppa um, „eitt lítið skref“ og allt það. Mennirnir með svörtu bindin í stjórnklefa NASA taka hverja andköfina á fætur annarri og fréttaþulurinn frægi Walter Cronkite tárast í beinni.

Samsæriskenningin um tungllendinguna sem fölsun

Mikið hefur verið pælt í þessu sjónvarpsefni frá því að það birtist á skjánum og samkvæmt einni helstu samsæriskenningunni á allt þetta sjónarspil að hafa verið fölsun. Hugmyndin er s.s. að tungllendingin sem heimsbyggðin fylgdist með sumarið 1969, hafi í raun verið sett á svið og framleidd eins og hver önnur kvikmynd. Þá er leikstjórinn Stanley Kubric yfirleitt orðaður um að hafa séð um verkið – enda hafði hann, árinu áður, gefið út geimóperuna 2001: A Space Oddysey. Sjónvarpsútsendingunni svipar vissulega til kvikmyndar Kubrics, að undanskildum geimverum, öpum og vélmennum, en á þessum geimsenum NASA og Kubrics er reginmunur. Tónlistin er allt önnur.

Í kvikmynd sinni 2001: A Space Oddysey notast Kubric aðallega við strengjaverk frá klassísku tónlistarmönnunum Richard Strauss og Johann Strauss II, ásamt ómstríðum verkum framúrstefnulistamannsins György Ligeti. En útsending tungllendingarinnar notast aðallega við þögn en líka tónlist sem hljómaði afar frábrugðið klassískum strengjaverkum.

Mynd með færslu
 Mynd: Pixabay
Risastökk fyrir mannkyn

Moog svuntuþeysarinn

Lagið Good Morning Starshine eftir kanadíska tónsmiðinn Mort Garson er talið vera endurvinnsla hans á þeirri tónlist sem hann framleiddi fyrir útsendingu tungllendingarinnar. Það má ljóslega heyra að hann fór allt aðra leið en Kubric í túlkun sinni á geimferðum. Kubric notaðist við klassík en Mort Garson spilar á hljóðfæri sem var nýfundið upp, þ.e. Moog svuntuþeysarann. Hann leitar þannig að nýjum og annars konar heimum í tónlist samferða geimförunum sem leituðu og fundu nýjan og allt annan heim á tunglinu.

Mort Garson hóf tónlistarferil sinn hins vegar á allt öðrum slóðum. Á 6. áratug síðustu aldar starfaði hann í almennri stúdíóvinnu, þar sem hann spilaði, samdi og útsetti tónlist ásamt því að gegna hlutverki hljómsveitastjórnanda. Hann einbeitti sér framan af af popp tónlist og samdi lög fyrir Brendu Lee, Cliff Richard og Ruby and the Romantics en einnig sá hann um umfangsmiklar tónlistarútsetningar fyrir Doris Day og Mel Tormé. Það varð síðan áveðin umpólun á ferli Garsons um miðjan 7. áratuginn þegar hann kynntist tónlistarverkfræðingnum Robert Moog og eignaðist eintak af uppfinningu hans, Moog svuntuþeysarann.

Moog svuntuþeysarinn er hljóðfæri sem stundum er kallað hljóðgervill. Þetta er eins konar hljómborð tengt við risastóran hljóðblandara eða mixer sem framleiðir hljóðbylgjur. Hljóminn má síðan keyra í gegnum mótunarbúnað sem skapar aragrúa af bæbrigðum á annars nokkuð einsleitri hljóðbylgju. Með nógu fínstilltum svuntuþeysara má til dæmis komast nálægt því að herma eftir hvers kyns hljóðfærum á borð við þverflautur, fiðlur, selló, píanó, trompet, og fleira, en það má líka finna upp hljóð sem hljóma ekki endilega eins og neitt og það var það sem heillaði Mort Garson á sínum tíma. Möguleikinn á að skapa ný hljóð, ný hljóðfæri og þar með nýja tegund tónlistar.

Tónlist langt handan þjónustusvæðis

Segja má að ferill Garsons eigi sér einfalda tvískiptingu, þ.e. fyrir og eftir Moog svuntuþeysarann, vegna þess að eftir að hann fékk hljóðfærið í hendurnar átti það hug hans allan og hann dældi út plötum sem skörtuðu nánast eingöngu þessu hljóðfæri. Fyrst gaf hann út 12 laga plötu um stjörnumerkin, þar sem hvert merki fékk sitt lag. Þar á eftir fylgdi platan Symphony for the Soul og síðan The Wizard of Iz sem var eins konar tónlistarparódía af Galdrakarlinum í Oz. Og það var í kjölfar þessara platna sem NASA hafði samband og bað hann um að semja tónlist fyrir sjónvarpsútsendingu tunglferðarinnar.

Tónlistina fyrir tunglið tók Mort Garson saman á plötunni Electronic Hair Pieces og það er svo tímabilið þar á eftir sem að tónlistin hans fer að leita lengra og teygja allverulega úr sér, og maður verður nánast að grípa til hippaenskuslettunnar far-out til að lýsa þessu efni, því það er vissulega langsótt eða langt í burtu, kannski, handan þjónustusvæðis.

Mynd með færslu
 Mynd: David Hilowitz - Flickr
Moog svuntuþeysarinn

Plöntutískan

Hér heyrum við opnunarlag plötunnar Mother Earth‘s Plantasia sem kom út árið 1976 en verður formlega endurútgefin í júní næstkomandi á vínyl og geisladisk. En þess má geta að forvitnir hlustendur geta flett henni upp á flestum streymisveitum. Þessi plata er síðasta svuntuþeysara platan sem Mort Garson gaf út á sínum tíma og þegar hér er komið við sögu er Garson búinn að nota tónlistina til að ferðast um geiminn, skoða hið dulvitaða og túlka stjörnumerkin. Á Mother Earth‘s Plantasia mætti segja að hann lendi hálfpartinn á jörðinni og einbeiti sér að sambandi okkar við náttúruna og þá sérstaklega sambandi okkar við plönturíkið og enn fremur sambandi tónlistar við plöntur. Þetta stingur kannski smá í stúf við hugmyndinir okkar um tíðaranda 8. ártugarins, en þessi plata sprettur úr nokkurs konar plöntu-tískubylgju.

Álfar, plöntur og huldufólk

Á 8. áratugnum kom út bókin The Secret Life of Plants eða Hið leynilega plöntulíf. Bókin segir frá rannsóknum þriggja vísindamanna á lífi plantna. Þeir notuðu rafeindatæki ekki svo ósvipað lygamæli til að mæla boðsendingar í plöntum. Niðurstöður þeirra sýna svo að plöntur virðast hafa ríka tilfinningu fyrir umhverfi sínu og virðast jafnvel mynda eins konar andlegt samlífi með lífverum í nærumhverfi sínu. Höfundar gengu meira að segja svo langt að telja plöntur vera komnar úr sama handanheimi og álfar og huldufólk. Bókin var mjög vinsæl á 8. áratugnum og árið 1979 var gerð heimildarmynd eftir henni – en þrátt fyrir vinsældirnar féll hún ekki í kramið hjá vísindasamfélaginu sem gagnrýndi hana fyrir að draga heldur ýktar ályktanir af takmörkuðum rannsóknum.

Mynd með færslu
 Mynd: Wikimedia - RÚV
Mort Garson samdi plötu með tónlist fyrir plöntur

Hljómur tónlistar og plantna

Á þessum frábæra áratug voru einnig gerðar umdeildar rannsóknir á plöntum í Annamalia háskólanum á Indlandi. Dr. T.C. Singh og rannsóknarteymi hans spiluðu klassíska tónlist fyrir plöntur og töldu sig komast að því að tónlistin auki vöxt þeirra til muna, þ.e. allt frá 25 til 60 prósent aukning í vexti. Sambærilegar rannsóknir fóru einnig fram í Bandaríkjunum. Árið 1973 gaf Dorothy Retallack út bókina, The Sound of Music and Plants eða Hljómur tónlistar og plantna. Í bók hennar komu fram svipaðar niðurstöður, plönturnar uxu hraðar með klassískri tónlist en merkilegt nokk þá virtust plönturnar forðast rokktónlist. Þær plöntur sem hlýddu á Jimi Hendrix og Led Zeppelin beindu vexti sínum í burtu frá tónlistinni eins og þær væru á flótta undan henni.

Það kemur ekki á óvart að dulvitundaráhugamaður á borð við Mort Garson hafi upptendrast við að lesa ævintýralegar ályktanir þessara rannsókna og ákveðið að semja plötu aðeins fyrir plöntur og fólkið sem unnir þeim. Hann hefur greinilega passað sig á að gera plötuna ekki of rokkaða eða þunga og tekið mið af góðum eiginleikum klassískrar tónlistar. Áferð tónlistarinnar á plötunni er mjúk og þægileg hlustunar, einnig ríkir mikill fjölbreytileiki í hljóðmyndinni.

Samtal við gróður í gegnum tónlist

Á plötunni vill hann eiga samtal við plöntur í gegnum tónlist. Verkið er ekki beint hugsað fyrir manneskjur heldur er það framleitt fyrir plöntur sem þýðir að Mort Garson er hér ennþá í samtali við hið dulvitaða eins og á fyrri plötum. Hann er að reyna að komast í samband við andlegar verur, þ.e. handanheiminn sem plönturnar eiga hlutdeild í. Þessi plata er nefnilega ekki aðeins fabúleringar um handanheima í skrifum, heldur er þetta frumspeki í verki. Allur hljóðheimurinn er búin til með Moog svuntuþeysaranum sem þýðir að Garson er hér að nálgast náttúruna og handanheiminn með manngerðri vél. Á vissann hátt lætur hann vélina ganga inn í náttúruna í gegnum heim tónlistarinnar. Tónlistin er hér brúin sem við byggjum til að komast yfir gjánna sem skilur að mann og náttúru, efni og anda, líkama og sál. Tónlistin, í þessum samhengi, er samlífið sem við myndum með náttúrunni.

Tengdar fréttir

Pistlar

Inni í okkur eru menningarheimar

Pistlar

Guðirnir í okkur öllum

Bókmenntir

Um víðlendur mannlegs eðlis, á fund morðingja

Pistlar

Af hverju eyðilögðum við Eiffelturn Akraness?