Tónleikar 5. maí með Sykur, Kviku og Par-Ðar

22.04.2016 - 10:42
Mynd með færslu
 Mynd: © Florian Trykowski - www.floriantrykowski.de
Mynd með færslu
 Mynd: Sigurður Ó.L. Bragason - RÚV
Tónlistarþátturinn Skúrinn á Rás 2 og Gamla bíó í samstarfi við Ofurhljóðkerfi ætla að heiðra bílskúrsbandamenningu þjóðarinnar með tónleikaröð sem hefst fimmtudaginn 5. maí. Tónleikaröðin hefst með tónleikum Sykurs, Kviku og Par-Ðar.

Tónleikarnir verða alls þrennir í tónleikaröðinni og hljómsveitirnar, sem stíga á stokk í tónleikaröðinni, eiga það sameiginlegt að hafa flutt tónlist sína í tónlistarþættinum Skúrnum á Rás. Skúrinn er grasrótartónlistaþáttur sem leikur tónlist eftir ungar og efnilegar íslenskar hljómsveitir.  Margar af hljómsveitunum, sem hafa leikið í Skúrnum, hafa síðar slegið í gegn. Þar á meðal eru hljómsveitirnar Ylja, Kiriyama Family og Sykur sem ætla að troða upp á þrennum tónleikum í Gamla bíói. Á fyrstu tónleikunum í tónleikaröðinni leikur Sykur ásamt hljómsveitunum Par-Ðar og Kviku.  Kiriyama Family og Ylja leika síðan 15. september og 16. febrúar 2017 ásamt ungum og upprennandi hljómsveitum. Allir tónleikarnir verða fluttir í beinni útsendingu á Rás 2 og hefjast kl. 22.00. Miðasala á tónleikana fer fram í gegnum https://midi.is/tonleikar/1/9558/Beint_ur_Skurnum_i_Gamla_bio

Facebooksíða viðburðarins: https://www.facebook.com/events/493598850823959/

Um Sykur

Sykur spila dansvæna, rafræna popptónlist. Hljómsveitin samanstendur af söngkonunni Agnesi Björt Andradóttur og hljóðgervlaverkfræðingunum Halldóri Eldjárn, Kristjáni Eldjárn Hjörleifssyni og Stefáni Finnbogasyni. Hljómsveitin hefur gefið út tvær plötur, Frábært eða frábært (2009) og Mesópótamíu (2011), og er sem stendur að hljóðrita efni á þriðju hljóðversplötuna sína sem enn hefur ekki hlotið nafn. Sykur munu spila nýtt efni í bland við eldra og er það gulltryggt að óskeikular bassakeilur Gamla bíós muni hreyfa við þeim gestum sem á tónleikana mæta.

Um Kviku

Hljómsveitin Kvika var stofnuð árið 2013 og er skipuð þeim Guðna Þ. Þorsteinssyni sem syngur, Örvarir O. Ólafssyin og Brynjari Óðinssyni sem báðir spila á gítar, Kolbeinn Tumi Haraldsson spilar á hljómborð, Arnrar F. Gunnsteinsson á bassa og Ásmundur Jóhannsson sér um slagverkið.  Hljómsveiting gaf út sína fyrstu plötu, Seasons, árið 2013 hjá Senu og hlaut hún meðal annars 8 stjörnur af 10 mögulegum frá hinum gamalkunna og þrautreynda tónlistargagnrýnanda Halldóri Inga Andréssyni.

Hljómsveitin Kvika hljaut tilnefninguna nýliði ársins á Hlustendaverðlaunum 365 árið 2015 og hafa mörg laganna af þeirra fyrstu plötu ratað í útvarp og verið vel tekið. Hljómsveitin vinnur þessa dagana að nýrri plötu. 

Um Par-Ðar

Par-Ðar er spennandi ný sækadelísk rokk hljómsveit af Suðurnesjunum. Tónlistarheimur þeirra er magnþrungin og tilfinningaríkur. Hann dregur þig í ferðalag um sjálfið og myndar þægilEgóþægilegheit en grípa þig með grúví bassalínum, synthum og röddunum. Áhrifavaldar hljómsveitarinnar eru umhverfið, fegurðin, ljótleikinn og lífið. Öll tónlist og öll hljóð hafa áhrif á okkur sem einstaklinga og Par-Ðar leitast eftir að búa til komposisjón sem leyfir hlustandanum að finna það fallega í sjálfum sér og lífinu. Hlustaðu!

 

Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi